Innlent

Ekki nægu fé veitt í málaflokkinn

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Reykjanesbraut sunnan Hafnarfjarðar.
Reykjanesbraut sunnan Hafnarfjarðar.
Hávær krafa er um að ráðist verði tafarlaust í breikkun Vesturlandsvegar, lokið verði við tvöföldun Reykjanesbrautar og að umferðaröryggi á Suðurlandsvegi, milli Hveragerðis og Selfoss, verði stórlega bætt. Forstjóri Vegagerðarinnar segir að ekki sé varið nægu fé í málaflokkinn.

Í síðustu viku tók Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, á móti áskorun frá leigubílstjórum á Suðurnesjum, um að flýta og klára tvöföldun Reykjanesbrautar. Við það tækifæri sagði ráðherra; „Við höfum í hyggju að líta til Reykjanesbrautarinnar þegar við endurskoðum samgönguáætlun til lengri tíma og allt snýst þetta um peninga og forgangsröðun og ég get sagt að í forgangsröðuninni þá liggur alveg fyrir að þessi braut er mjög mikilvæg,“ sagði Ólöf Nordal, innanríkisráðherra.

Síðan þá hefur bæjarráð Akraneskaupstaðar bókað á fundi sínum áskorun til samgönguyfirvalda um að forgangsraða fjárveitingum í þágu umferðaröryggis og hefja nú þegar breikkun á Vesturlandsvegi sunnan Hvalfjarðarganga. Sömuleiðis þá hefur bæjarráð Hveragerðisbæjar bókað á sínum fundi að of litlu fé sé veitt í vegamál. Og að brýna nauðsyn bæri til að samræmis sé gætt á milli samþykktrar samgönguáætlunar og þess fjármagns sem áætlað er til málaflokksins.

„Það er svo sem lengi búið að tala um nauðsyn á því að breikka þessa vegi alla hérna næst höfuðborginni. Þá er þetta orðið meira og meira áberandi umræða að, sérstaklega þegar að öryggissjónarmiðin, fara að fá meira vægi, þá verði þetta að komast framar í forgangsröðunina,“ segir Hreinn Haraldsson, forstjóri Vegargerðarinnar.

Undirbúningur er hafinn á tvöföldun vegarins á milli Hverageris og Selfoss og sömuleiðis tvöföldun Reykjanesbrautar við Hafnarfjörð.

Hvað með Vesturlandsveginn?

„Jú hann er sjálfsagt líka upp að Hvalfjarðargöngum mjög brýnn og það er þegar búið að gera ráð fyrir því að í Samgönguátælun sem var lögð fyrir þingið í vor að það verði hafist handa þar árið 2018.

Það hafa orðið þar hörmuleg slys eins og á hinum vegunum og það verður ekki leyst úr því nema með því að breikka vegina og aðskilja akstursstefnur með vegriði sem er jú aðal tilgangurinn með þessum framkvæmdum að auka öryggið,“ segir Hreinn

Hreinn segir að ekki hafi verið sett inn á áætlun á ári að hverju að fara í framkvæmdir á þessum vegum öllum í einum.

„Auðvitað er hægt að standa að framkvæmdum á fleiri en einum stað á fleiri en einum vegi ef að fjármagni skortir ekki,“ segir Hreinn

Endurskoðun Samgönguáætlunar er nú í meðförum þingsins og vonast hreinn eftir því að áætlunin verði samþykkt og því féi varið í verkefnin sem þörf er á.

„Það er margt ógert sem þörf er á og verður eiginlega að fara að spýta í lófana og hrinda í framkvæmd þannig að við tökum undir það að þessi málaflokkur hefur verið svelltur,“ segir Hreinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×