Enski boltinn

Tvíeykið hjá Tottenham sem enginn ræður við þessa dagana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane og Dele Alli.
Harry Kane og Dele Alli. Vísir/Getty
Tottenham minnkaði forskot Leicester City á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í fimm stig með sannfærandi 4-0 sigri á Stoke City í gær.

Fjórar umferðir eru eftir og tólf stig því enn í pottinum. Ætli Tottenham að setja alvöru pressu á Leicester þá þurfa ensku landsliðsmennirnir Harry Kane og Dele Alli að halda áfram uppteknum hætti.

Þessir ungu ensku landsliðsmenn, Harry Kane er 22 ára og Dele Alli er 20 ára, hafa verið algjörlega óstöðvandi upp á síðkastið en þeir skoruðu báðir tvö mörk í gærkvöldi.

„Við erum ekkert að fara neitt," sagði Harry Kane eftir leikinn. „Við teljum að við getum náð þeim. Leicester er enn í ökumannssætinu en við höfum fjóra leiki til að vinna upp forskotið," sagði Kane.

Tottenham hefur nú spilaði sex deildarleiki í röð án þess að tapa og fjórir þeirra hafa unnist. Tottenham er með fjórtán stig og fimmtán mörk í þessum sex leikjum.

Harry Kane hefur skorað 8 mörk í þessum sex leikjum og Dele Alli er með 3 mörk og 4 stoðsendingar. Þeir hafa því skorað saman 11 af síðustu 15 mörkum Spurs-liðsins og Alli hefur lagt upp fjögur mörk fyrir Kane í undanförnum sex leikjum Tottenham.

Harry Kane náði tveggja marka forskoti á Jamie Vardy á listanum yfir markahæstu menn ensku úrvalsdeildarinnar með þessum tveimur mörkum í gær en Sergio Agüero er síðan þriðji, þremur mörkum á eftir Kane.

Harry Kane hefur alls skorað 24 mörk í 34 leikjum á tímabilinu en Dele Alli náði að skora sitt tíunda mark í gær. Alli hefur einnig gefið 9 stoðsendingar.

Síðustu fjórir leikir Tottenham er á móti West Bromwich Albion á heimavelli, á móti Chelsea á útivelli, á móti Southampton á heimavelli og á móti Newcastle á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×