Innlent

„Það má gagnrýna Framsóknarflokkinn, en ekki þá sem gagnrýna Framsóknarflokkinn“

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Ásmundur Ásmundsson hefur upplifað þrengingar sem snúa að tjáningarfrelsi.
Ásmundur Ásmundsson hefur upplifað þrengingar sem snúa að tjáningarfrelsi. Vísir/Ernir
Ásmundur Ásmundsson hefur verið áberandi í íslensku listalífi undanfarin ár. Frá árunum eftir hrun hefur hann upplifað þrengingar sem snúa að tjáningarfrelsi. Hann segir aukna ritskoðun og þöggun áhyggjuefni, að verk hans og sýningar hafa verið ritskoðaðar. Kaflaskil hafi orðið með sýningunni Koddu, þar sem eitt umtalaðasta verk seinni ára, Fallegasta bók í heimi var sýnt. Í vor var svo verki hans Holu úthýst frá sýningu í Safnahúsinu.

„Það má segja að ákveðið fordæmi hafi verið gefið þegar Listasafn Árnesinga úthýsti sýningunni Koddu skömmu áður en hún átti að opna,” segir Ásmundur Ásmundsson,. Sýningarstjórar sýningarinnar voru Ásmundur, Hannes Lárusson og Tinna Grétarsdóttir. Upphaflega hafði safnið leitað til Hannesar og lagt upp með að þema sýningarinnar yrði: Safneignin úr fórum Halldórs Einarssonar skoðuð með tilliti til þjóðlegrar fagurfræði þá og nú.

Samkomulag á milli Hannesar og Ingu Jónsdóttur, safnstjóra Listasafns Árnesinga, varð um að sýningin yrði opnuð í nóvember 2010. Í ársskýrslu Listasafns Árnesinga 2011 segir um ágreining safnstjóra og sýningarstjóra:

Inntak sýningarinnar breyttist. Ég gerði ekki athugasemdir við það og fannst reyndar áhugavert að taka inn í safnið sýningu þar sem umræðuefni samfélagsins væri tekið fyrir; birtingarmyndir góðæris og hruns. En ágreiningurinn varð vegna þess að sýningarstjóri/sýningarstjórn bar enga virðingu fyrir stofnuninni sem hann/þau þáðu að starfa við og þeim var fyrirmunað að skilja að stofnunin setti sér mörk sem þeim bar að virða.

Úthýst úr safninu

„Þetta var hrein og klár ritskoðun sem er mjög alvarleg valdbeiting,” útskýrir Ásmundur.

„Og því kom aldrei annað til greina en að setja upp sýninguna annarsstaðar. Það var bara erfiðara en við lögðum upp með vegna þess að listheimurinn og menningarstofnanirnar höfðu einhvern veginn tekið afstöðu gegn sýningunni og þannig með ritskoðunartilburðum safnstjórans áður en hún hafði verið sett upp. Menningarelítan eða intelligensían eða hvað menn vilja kalla þetta yfirvald sem vill stýra menningunni og telur sig eiga hana reyndi leynt og ljóst að hindra að sýningin færi upp.”

Að lokum lagði Barónessan Francesca von Habsburg þremenningunum lið og lagði fram það fjármagn sem til þurfti. Koddu var að sett upp bæði í Allianz-húsinu og í Nýlistasafninu. Á sýningunni voru verk 46 listamanna. Titill sýningarinnar Koddu var sóttur til auglýsingaherferðarinnar Inspired by Iceland, og inntak hennar spannaði allt frá tilurð þjóðlegs myndmáls, virkni ímynda í samtímanum til birtingarmynda og tákngervinga góðærisins, Hrunsins og eftirmála þess.

Fallegasta bók í heimi, verk Ásmundar.Ljósmynd: Ingvar Högni Ragnarsson
Fallegasta bók í heimi

„Það fór eitthvað af stað – en það fór ekkert almennilega af stað fyrr en Nýló ritskoðaði sýninguna, tók niður Fallegustu bók í heimi og lokaði safninu,”  

Ástæðan fyrir lokun sýningarinnar voru ásakanir forsvarsmanna bókaútgáfunnar Crymogeu um notkun eintaks af Flora Islandica, með myndskreytingum Eggerts Péturssonar listmálara, hafi verið brot á sæmdarrétti höfundar bókarinnar.

Fallegasta bók í heimi er höfundarverk sýningarstjóranna sem keyptu eintak af Flora Islandica og skreyttu hana með mat, súkkulaði, majonesi og malakoffi. Bókin var hluti af stærri innsetningu sýningarinnar.

Árás á blómin

„Sýningin vakti blendin viðbrögð og varð fljótt umdeild, en það að hún hafi yfirleitt farið upp fór fyrir brjóstið á þeim sem telja sig eiga menninguna og vilja stjórna henni. Þetta var ágeng sýning og ögrandi og því vorum við viðbúin því að hún myndi vekja hörð viðbrögð. „Yfirvaldið“ var búið að ákveða að sýningin yrði ekki, og þess vegna voru menn mjög tilbúnir að ráðast að sýningunni og fengu þetta gullna tækifæri sem var bókin,” heldur Ásmundur áfram og segist enn ekki skilja hvernig hægt sé að snúa þannig upp á verkið að það sé árás á manninn sem teiknaði blómin í bókina.

„Þetta er svo langsótt. En það er viðtekinn miskilningur í listheiminum að þetta hafi verið árás á blómin.”

Ásmundur segir enga eina túlkun á þessu verki.

„Heldur er það margrætt og marglaga líkt og  önnur góð listaverk. Hvernig er hægt að gera sýningu um íslenskt myndmál, vinna með þjóðarímyndir og sjálfsmynd þjóðarinnar, án þess að nota bókina sem íkon? Við vorum að vinna með bókina, sem slíka og þennan helgidóm sem handritin okkar eru. Þessi tiltekna bók hentaði vel sem hráefni því hún er þykk, í stóru broti með tiltölulega auðum síðum. Svo notum við aðferðarfræði sem var lengi vel kennd hér í skólum, arfleifð Dieters Roth, með því að nota mat sem efnivið í listaverk.”

Umdeild verk og ofsafengin viðbrögð

Bjóstu við þessum ofsafengnu viðbrögðum? Sérðu eftir þessu?

„Ég vissi að það yrði eitthvað, en að það yrði svona ýkt vissi ég ekki. Ég hafði ekki áttað mig á því að fólk myndi ráðast á þetta verk. Við keyptum bók með ISBN númeri og strikamerki og breyttum í listaverk. Ég sé ekki að það sé skemmdarverk og árás, en þetta er eitt mest umtalaða og mikilvægasta listaverk síðustu ára. Ég get ekki verið óánægður með það,” segir Ásmundur.

Fleiri verk voru umdeild á sýningunni. Meðal annars samsett mynd sem sýnir Bjarna Ármannsson og friðarsúluna í bakgrunni, ljósmyndir af listamönnum í faðmlögum við útrásarvíkinga og upprifjun af því sem sumir lýsa sem vandræðalegri stemningu fyrir Hrun og margir vildu gleyma.

„Ef Koddu hefði til dæmis verið að gagnrýna Framsóknarflokkinn þá hefði listheimurinn tekið því, en þetta var einskonar sjálfsgagnrýni. Fólk sá sýninguna sem árás á sína eigin sjálfsmynd og það þótti þeim erfitt.”

Átti ekki að blanda sér í menningu

Aðspurður segir Ásmundur Koddu hafa haft talsverð áhrif á möguleika sína til að starfa hérlendis.

„Engin spurning. Svona sýningu gæti til dæmis enginn sett upp í dag. Mér hefur verið kippt útúr því umbunarkerfi sem sem áður stóð mér til boða, til dæmis starfslaun listamanna. Ég hef ekkert kennt við Listaháskólann síðan sýningin var og sýningin ekki verið til umfjöllunar þar enda mikilvægt að senda nemendum skýr skilaboð um hvað má og hvað má ekki. Áður hafði ég  kennt þar við ágætan orðstír."

Deilurnar héldu áfram. Ásmundur og myndlistarmaðurinn Kristinn Hrafnsson deildu í fjölmiðlum vegna ráðningar nýs rektors við Listaháskóla Íslands. Í kjölfarið sagði Kristinn í grein sinni að Ásmundur væri kunnastur fyrir að eyðileggja listaverk annarra listamanna. Ásmundur höfðaði meiðyrðamál gegn Kristni fyrir þessi ummæli og krafðist miskabóta.

„Hann gerir þarna persónulega árás á mig og starfsheiður minn. Og hann sagði fleira – sem ég hefði átt að kæra hann fyrir líka– til dæmis að ég hefði sótt um stöður við Listaháskóla Íslands sem ég hefði síðan ekki fengið og í kjölfarið hótað málsóknum. Þetta er uppspuni frá rótum. Ég held að þessi grein hafi verið hugsuð sem náðarhöggið. Skilaboðin til mín áttu að vera þau að ég ætti ekkert með að blanda mér inn í þennan heim menningar.”

Ásmundur tapaði málinu fyrir dómi.

„Dómarinn hefur tekið það trúanlegt að  Fallegasta bók í heimi væri skemmdarverk en ekki listaverk. Kristinn skrifaði um mig marga síðna skýrslu sem hann setti fram sem gagn í málinu, þetta var rógburður, sóðarit um mig á tuttugu síðum með tugum neðanmálsgreina. Sá einbeitti brotavilji sem birtist í skýrslunni hefði átt að duga til þess að ég ynni málið. En það var samt gaman og mikilvægt að fara með málið fyrir dómstóla.”

Ásmundur á vinnustofunniVísir/Ernir
Ekki hluti af vinnunni

„Þetta er aðferðarfræðin sem er notuð – það er ráðist á persónuna og þess vegna fer ég í þessi málaferli við Kristinn. Þetta er ekki bara árás á tjáningarfrelsið og mig sem listamann heldur líka á afkomuöryggið og þar með heimilið mitt.”

Ásmundur og fjölskylda hans ætla að flytja til Noregs.

„Við förumnúna í sumar, eltum hjúkrunarfræðingana. Auðvitað er þetta óviðunandi ástand að mörgu leyti, þó að í því leynist áhugaverður efniviður. Það er líka mjög mikilvægt að listamenn vinni með þessi mörk tjáningarfrelsinsins og þenji þau út. Það er  í sjálfu sér áhugavert.“

Ásmundur segist hafa komið tvíefldur út úr öllu saman, en segir líka erfitt að sjá hvernig hlutirnir virka.

„Að sjá hvernig einstaklingurinn hagar sér í svona átökum þar sem sannleikurinn verður aukaatriði. Þá getur það verið mjög sjokkerandi að sjá hræðsluna sem grípur fólk þegar kerfið sýnir tennurnar.“

 Ertu að bugast og þess vegna að fara úr landi?

„Nei, en þetta er auðvitað orðið rosalega aðþrengt. Þetta heldur áfram. Ég veit ekki hvort ég sé að ýkja með að kalla þetta ofsóknir. Þær ná hápunkti niðri í Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík í maí, þar sem ég hef unnið síðustu ár. Ég og Hannes Lárusson vorum semsagt reknir úr Myndhöggvarafélaginu fyrir þjófnað, óheilindi, skemmdarverk og misnotkun á aðstöðu félagsins svo fátt eitt  sé nefnt,” útskýrir Ásmundur og heldur áfram.

„Þessum óhróðri var laumað inn á aðalfund myndhöggvarafélagsin, undir liðnum önnur mál, tillaga um að okkur yrði vísað úr félaginu án þess að við fengjum tækifæri til að bregðast við ásökunum, Það greiddu átta með þessu atkvæði og sjö voru á móti. Hinir sátu hjá,” segir Ásmundur og bætir við að hann hafi verið steinhissa þegar hann hafi frétti af brottrekstrinum.

„Þetta er hneisa, fyrir félag sem er rekið fyrir opinbert fé. Svo kom í ljós að Kristinn Hrafnsson var höfundur að þessari tillögu.  Hann er þarna í ofstækisfullri hagsmunagæslu og hatursherferð.”

Snemma til vandræða

Ásmundur byrjaði snemma í myndlistarskólanum á Akureyri, átján ára gamall.„Ég fór svo í fjöltæknideild í myndlista- og handíðaskólanum. Síðan fór ég til New York, í School of Visual Arts og lærði þar. Ég byrjaði strax að gera gjörninga og innsetningar í myndlistaskólanum, það var svona stemmningin í fjöltæknideild, ég sótti þar gjörningakúrsa og þessháttar,” segir Ásmundur.

Ásmundur segist strax hafa rekið sig á veggi innan myndlistarheimsins, nýútskrifaður.

„Mér var boðið að taka þátt í sýningu  á Kjarvalstöðum. Sýningin hét Skúlptúr skúlptúr skúlptur árið 1994 og Gunnar Kvaran var sýningarstjórinn. Ég sendi póstkort til félaga míns á Akureyri og setti lógó Kjarvalstaða framan á. Inn í póstkortinu lýsi ég  samskiptum mínum við starsfólk safnsins og geri góðlátlegt grín af þeim. Þetta endar einhvernveginn hjá Kjarvalsstöðum en ekki Akureyri.

 Þegar ég ætla að koma með verkið og held ég sé með á sýningunni, er ég stoppaður og spurður hvort ég hafi ekki verið að senda bréf til þeirra um samskipti mín við þau. Ég kannaðist ekkert við það. Það endaði þannig að ég var rekinn af sýningunni. Ég varð strax til vandræða, en þetta var reyndar óvart. Og þarna sá ég möguleikana í þessu. Þetta víkkaði sviðið fyrir mér. Hvað væri hægt að vinna með, þá fór ég að skoða þessi innviði og stofnanir listheimsins og nota sem efnivið í listaverk. Í sjálfu sér var þetta póstkort jafnvel ennþá betra en verkið sem ég ætlaði að sýna.”

HolaLjósmynd: Ívar Brynjólfsson
Hola

Í vor opnaði grunnsýning á íslenskri lista og sjónrænum menningararfi, Sjónarhorn, í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Til stóð að verk Ásmundar Hola yrði sett upp fyrir utan bygginguna. Hola er verk frá 2009 þar sem Ásmundur fékk hóp grunnskólabarna til að moka fyrir sig djúpa holu, síðan var afsteypa tekin af holunni og það stykki var sýnt sem skúlptúr. Þegar til kom steig Þjóðminjavörður fram og sagði að verkið yrði ekki sett upp fyrir utan safnahúsið. Ástæðan var húsafriðun. 

„Ég hafði samband við Minjastofnun og fékk þær upplýsingar að húsafriðunarnefnd skipti sér ekki af því þótt verk væru sett tímabundið fyrir utan húsið. Ég fékk reyndar líka að vita að aldrei barst Minjastofnun erindi vegna Holu, þannig að það var aldrei nein alvara á bakvið hugmyndina að setja verkið upp”. 

StraumlínulögunÁsmundur leggur áherslu á hversu alvarlegt mál ritskoðun sé.

„Tjáningarfrelsið er þungamiðjan í siðuðu samfélagi. Listin á að vera vettvangur átaka, því það er með átökunum sem útvíkkunin á sér stað. En þetta ofstæki og þöggunartilburðir er eitthvað sem á ekki að viðgangast og er í rauninni hættulegt og stórskaðlegt fyrir listina í landinu og frjálsa hugsun. Róttækni er umborin upp að vissu marki. Allt skal vera straumlínulagað. Það má gagnrýna Framsóknarflokkinn, en ekki þá sem gagnrýna Framsóknarflokkinn.

Það er svo spurning hvort ungt listafólk ætli að sætta sig við þetta ástand.  Ég held að það sé tími til róttækrar endurskoðunar og endurnýjunar.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.