Lífið

Íslensk kvikmynd um sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Leikstjórinn segir að einn helsti hvatinn að gerð myndarinnar hafi verið persónuleg tengsl og áhugi Jóns Baldvins á Sovétríkjunum.
Leikstjórinn segir að einn helsti hvatinn að gerð myndarinnar hafi verið persónuleg tengsl og áhugi Jóns Baldvins á Sovétríkjunum.
Íslenska heimildarmyndin Þeir sem þora verður frumsýnd í kvikmyndahúsum hér á landi um næstu mánaðamót. Myndin lýsir aðkomu Íslands að baráttu Eystrasaltsríkjanna, Eistlands, Lettlands og Litháens, í skjóli umbótastefnu Míkaíls Gorbatsjov, fyrir endurreisn sjálfstæðis þeirra árin 1986 til 1991. Myndin var frumsýnd í Eistlandi á dögunum og fékk þar góðar viðtökur að sögn leikstjórans, Ólafs Rögnvaldssonar. Myndin var svo sýnd í Forsetahöllinni í Vilníus í Litháen í gærkvöldi en þá voru liðin nákvæmlega 25 ár síðan Litháar lýstu yfir sjálfstæði. Myndin var svo sýnd í litháíska sjónvarpinu í beinu framhaldi.

„Hugmyndin kom frá Kolfinnu Baldvinsdóttur sem fékk mig til að fara í þetta með sér,“ segir Ólafur, sem er leikstjóri myndarinnar en Kolfinna er handritshöfundur og spyrill myndarinnar.

„Myndin fangar hina örlagaríku atburðarás sem fór af stað í höfuðborgum Eystrasaltsríkjanna, Vilníus, Ríga og Tallinn, í janúar 1991, þegar Sovétherinn reyndi á grimmúðlegan hátt að kæfa anda frelsis og ganga milli bols og höfuðs á hreyfingum sjálfstæðissinna. Á þessari örlagastundu var utanríkisráðherra Íslands, Jón Baldvin Hannibalsson, eini vestræni utanríkisráðherrann sem heimsótti höfuðborgirnar þrjár og sýndi með því stuðning þjóðar sinnar í verki,“ segir Ólafur.

Í kjölfar valdaráns í Moskvu í ágúst 1991 varð Ísland fyrsta ríki heims til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna.

Í kjölfarið fylgdi hröð atburðarás og Sovétríkin heyrðu sögunni til í desember sama ár.

Myndin fjallar um sjálfstæðisbaráttu þessara landa og byggir á viðtölum við marga. Ólafur segir að persónuleg tengsl og sérlegur áhugi Jóns Baldvins á Sovétríkjunum hafi verið helsti hvatinn.

„Hann var, ásamt danska utanríkisráðherranum Uffe Elleman Jensen, dyggasti stuðningsmaður Eystrasaltsríkjanna innan Sameinuðu þjóðanna, NATO og fleiri stofnana og talaði máli þeirra á vettvangi alþjóðlegrar stjórnmálaumræðu þegar færi gafst.

Þeir gerðu sér báðir grein fyrir því að alþjóðasamfélagið hafði í raun lítinn sem engan áhuga á þessum litla afkima Sovétríkjanna og voru jafnframt þeirrar skoðunar að innlimun Eystrasaltsríkjanna í Sovétríkin í seinni heimsstyrjöldinni stæðist ekki lög,“ segir Ólafur sem var viðstaddur sýningu myndarinnar í Vilníus í gærkvöld ásamt Jóni Baldvin, eiginkonu hans, Bryndísi Schram, og dóttur þeirra, Kolfinnu.

Myndin er unnin í samvinnu við fyrirtæki í Eystrasaltsríkjunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×