Innlent

Fjölskyldufólkið aðlagast betur

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Reykjanesbær
Reykjanesbær vísir/gva
Breytingar sem í fyrra voru gerðar á skipulagi þjónustu við hælisleitendur eru til þess fallnar að draga úr fordómum í garð þeirra. Þetta segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í sveitarfélaginu.

Í nýrri B.S.-ritgerð Jóhönnu Maríu Jónsdóttur, frá Háskólanum við Bifröst, er niðurstaðan sú að íbúar Reykjanesbæjar telji hælisleitendur fá meiri peninga en raun ber vitni og að margir telji búsetu hælisleitenda þar ekki hafa góð áhrif á samfélagið.

Áherslubreytingin sem Kjartan vísar til fólst í því að Reykjavíkurborg tók að sér umsjón hluta þjónustunnar við hælisleitendur, sem áður var eingöngu á hendi Reykjanesbæjar.

Kjartan Már Kjartansson
Borgin sinnir einhleypum hælisleitendum. Því segir Kjartan að stór hópur ungra karlmanna, sem sóttu hér um hæli, hafi farið til Reykjavíkur.

„Í Reykjanesbæ dvelur því að meginuppistöðu til fjölskyldufólk,“ segir Kjartan og bætir því við að fjölskyldufólkið hafi aðlagast samfélaginu betur. 

Þegar hælisleitendur komu fyrst til Reykjanesbæjar voru þeir oftast einhleypir karlmenn með enga fjölskyldu. ,,Það má segja að þeir hafi sett svip á bæjarbraginn.“

Niðurstöður rannsóknar Jóhönnu Maríu sýna meðal annars fram á neikvæðari sýn og viðhorf íbúa í Reykjanesbæ í garð hælisleitenda en hjá höfuðborgarbúum.

Kjartan segir viðhorf íbúa Reykjanesbæjar misjöfn eins og íbúar eru margir. ,,En það gefur augaleið að eftir því sem samfélagið er minna þá verða íbúar meira varir við hælisleitendur og þeir mun meira áberandi.“

Kjartan bætir við að nú búi hælisleitendur líka víðar um bæinn, áður hafi þeir allir verið á einum stað.


Tengdar fréttir

Umræða lituð af fordómum

Ný rannsókn leiðir í ljós að íbúar Reykjanesbæjar telja hælisleitendur fá meiri peninga en raun ber vitni. 66 prósent þeirra sem tóku þátt í könnuninni telja búsetu hælisleitenda þar ekki hafa góð áhrif á bæjarfélagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×