Sport

Hafdís nærri dottin: Heppin að ég lamdi ekki Hrafnhild

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hafdís Sigurðardóttir varð af titlinum í 200 m hlaupi um helgina.
Hafdís Sigurðardóttir varð af titlinum í 200 m hlaupi um helgina.
Það gekk á ýmsu í 200 m hlaupi kvenna á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum innanhúss í Kaplakrika í gær. Hafdís Sigurðardóttir, UFA, missti jafnvægið í síðustu beygjunni og varð að lokum að sætta sig við silfur eftir að Hrafnhild Eir R. Hermóðsdóttir kom fyrst í mark.

„Það er mikill hæðarmunur í þessari beygju og ég er einmitt að taka skref þegar hallinn er sem mestur niður á við,“ sagði Hafdís við Fréttablaðið í gær en endarnir á hlaupabrautinni eru í þó nokkrum halla, líkt og tíðkast innanhúss.

„Ég missti algjörlega jafnvægið og var heppin að ég fór ekki á hausinn eða lamdi Hrafnhild,“ segir hún enn fremur. „Ég ætla þó ekki að setja út á brautina enda ekki verri en hver önnur. Þetta var engu að síður sárt enda er 200 m hlaup ein af mínum sterkustu greinum.“

Hafdís, sem er frá Akureyri, keppir aðeins á innanhúsbrautum á höfuðborgarsvæðinu. „Ég æfi á grasi í fótboltahúsi til að hlaupa hringi. Hingað til hefur þetta þó gengið ágætlega þegar ég kem suður þó að ég sé svolítið ryðguð í upphafi. En þetta var svolítið sárt.“

Hafdís vann gull í langstökki með stökki upp á 6,32 og var hún yfir lágmarkinu fyrir EM í mars öðru sinni á skömmum tíma. Hrafnhild náði einnig lágmarki fyrir EM er hún hljóp 60 m hlaup á nýju Íslandsmeti, 7,50 sekúndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×