Fótbolti

Íslenskur fulltrúi á Heimsmeistaramótinu í Kanada í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Á Algarve. María lék fyrstu landsleikina í mars.
Á Algarve. María lék fyrstu landsleikina í mars. Fréttablaðið/Getty
Alveg eins og á HM í fótbolta í Brasilíu í fyrra verður íslenskur fulltrúi á HM í Kanada þrátt fyrir að íslenska kvennalandsliðið hafi ekki komist í úrslitakeppnina.

María Þórisdóttir, 21 árs dóttir Þóris Hergeirssonar, landsliðsþjálfara Norðmanna í handbolta, er í 23 manna HM-hópi Norðmanna. María verður í treyju númer tvö en hún er þriðji yngsti leikmaður hópsins.

„Vá, þessu hefði ég ekki trúað fyrir tveimur mánuðum síðan. Þetta verður ótrúlega gaman,“ skrifaði María á Twitter-síðu sína.

María valdi það að spila fyrir norska landsliðið en hún er dóttir Þóris Hergeirssonar, þjálfara norska kvennalandsliðsins í handbolta, og hefur búið alla tíð.

María lék sinn fyrsta landsleik á móti Íslandi í Algarve-bikarnum í byrjun mars en hún spilar fyrir íslenska þjálfarann Jón Pál Pálmason hjá spútnikliði Klepp í norsku deildinni. Klepp-liðið er með jafnmörg stig og Avaldsnes í 2. til 3. sæti deildarinnar í HM-fríinu

Fyrir ári spilaði Aron Jóhannsson með bandaríska landsliðinu á HM í Brasilíu en hann fékk þá að spila í 67 mínútur.

Fyrsti leikur Norðmanna á HM er á móti Taílandi 7. júní eða tveimur dögum eftir 22 ára afmæli Maríu. Þýskaland og Fílabeinsströndin eru einnig í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×