Innlent

Mörg dæmi um börn sem mæta ekki í skóla vegna skorts á úrræðum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Guðlaug segir óviðunandi að börn séu föst heima í úrræðaleysi.
Guðlaug segir óviðunandi að börn séu föst heima í úrræðaleysi. vísir/anton
„Það eru börn sem mæta ekki í skólann vegna vanda en eru á biðlista eftir að komast í úrræði,“ segir Guðlaug Erla Gunnarsdóttir, formaður Félags skólastjórnenda í Reykjavík. Félagið er eitt af mörgum sem skrifuðu undir áskorun til stjórnvalda um að bæta stuðning við börn í vanda, sem Vísir fjallaði um í gær. 

Guðlaug segir börnin vera jafnvel heima svo mánuðum skiptir. „Þau eru bara það veik að þau treysta sér ekki í skólann eða foreldrar koma þeim ekki í skólann. Það er mikið áhyggjuefni þegar börn á grunnskólaaldri komast ekki í viðeigandi úrræði. Þessi bið getur haft óafturkræf áhrif á líf þeirra.“

Þegar barn mætir ekki í skólann er það tilkynnt til Barnaverndar. Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar í Reykjavík, staðfestir að tilkynningar berist vegna fjarveru barna sem sýna áhættuhegðun og sem eigi við andleg veikindi að stríða. Hún segir þó erfitt að vita nákvæman fjölda enda þurfi að flokka allar tilkynningar frá skólum til þess.

„En það eru einhver tilvik í hverjum mánuði. Við erum ekki að tala um þúsundir barna sem loka sig inni og vilja ekki fara í skólann en það er töluverður hópur hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Það er afar brýnt að þessi börn fái frumgreiningu sem allra fyrst.“

Ekki var hægt að fá gefinn upp fjölda barna sem eru í bið heima hjá sér og mæta ekki í skóla. Samkvæmt upplýsingum frá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur er ekki til nein tölfræði um fjarveru enda erfitt að afla hennar vegna breytilegra aðstæðna, flókinnar greiningar og persónuverndarlaga.


Tengdar fréttir

Skóli án aðgreiningar gengur ekki upp í núverandi mynd

Foreldrar, skólastjórnendur, kennarar og aðrir hagsmunaaðilar ­sameinast í áskorun til stjórnvalda um að bæta þjónustu við börn í grunnskólum. Fjórðungur barna í grunnskólum þurfa sérkennslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×