Lífið

Hlaut að eiga að vera svona

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Það var öllu tjaldað til í brúðkaupinu á laugardaginn. Hér eru þeir Bergþór og Olivier að bragða á kökunni.
Það var öllu tjaldað til í brúðkaupinu á laugardaginn. Hér eru þeir Bergþór og Olivier að bragða á kökunni.
„Þetta var í rauninni alveg ótrúlegt og það var framar öllum vonum hvernig brúðkaupið fór fram. Presturinn, hún Jóna Hrönn, stakk upp á því að við myndum þýða ræðuna hennar, texta um kærleikann úr Biblíunni og vígsluspurningarnar á frönsku og það var Jerôme sem var með í för sem var í hlutverki aðstoðarprests og flutti á frönsku,“ segir Bergþór Bjarnason sem gekk að eiga Olivier Francheteau síðastliðinn laugardag í Landakirkju í Vestmanneyjum.

Um var að ræða fyrstu hjónavígslu samkynhneigðra í kirkjunni og var það séra Jóna Hrönn Bolladóttir sem gaf þá Bergþór og Olivier saman.

Í athöfninni var blandað saman íslenskri, franskri og enskri tónlist sem leikin var af tónlistarmönnum úr Vestmannaeyjum.

„Það var mikil gleði í kirkjunni og góð stemning,“ segir Bergþór glaður í bragði og heldur áfram: „Þegar ræðan var flutt á íslensku hlógu Íslendingarnir og þegar hún var flutt á frönsku hlógu Frakkarnir.“

Og þó að veðrið hafi ekki verið upp á sitt besta og rignt hafi talsvert þá hafði það engin áhrif á gleðina því úr veðrinu rættist á sunnudaginn og allir komust heim með Herjólfi en talsverður fjöldi gesta kom frá Frakklandi enda Olivier franskur og eru þeir Bergþór búsettir í Nice. Fjölskylda og vinafólk þeirra frá Frakklandi kom því í brúðkaupið og nýtti einnig tímann til að skoða landið og segir Bergþór alla hafa skemmt sér konunglega.

„Við hugsuðum hvort við ættum að gera þetta tvisvar, í Nice og hér á Íslandi, en svo stakk Olivier upp á því að fara heim til Íslands og gera þetta hér í Vestmannaeyjum á æskuslóðum mínum.“

Eftir athöfnina var haldið til veislu á veitingahúsinu Slippnum í Vestmannaeyjum þar sem íslenskt hráefni úr nærumhverfi var í hávegum haft og veisluhöldin í frönskum stíl.

„Þar var tekið á móti okkur með allskyns kræsingum, maðurinn minn vildi endilega að þetta yrði svolítið franskt að því leyti að það yrði langur kokteill í upphafi veisluhalda. Það er oft það mikilvægasta hjá Frökkunum, að þetta taki svolítið langan tíma.“

„Við kynntumst fyrir tíu árum, í lok ágúst á bökkum Signu í sunnudagsgöngu í sólskini. Þegar hann vissi að ég var Íslendingur þá var það bara tákn, þetta hlaut að eiga að vera svona,“ segir Bergþór hlæjandi en Olivier er mikill aðdáandi Bjarkar Guðmundsdóttur.

„Við reyndum það nú reyndar ekki, það hefði kannski verið svolítið erfitt,“ segir hann hlæjandi að lokum þegar hann er spurður að því hvort ekki hafi verið reynt að fá Björk til að taka lagið í brúðkaupinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.