Innlent

Borgarstjóri les blöðin áfram

Jakob Bjarnar skrifar
Borgarfulltrúar verða nú að klípa af því fé sem þeir fá og verja til þess sem ætlað er í stað þess að ganga að fjölmiðlunum vísum í vinnuaðstöðu sinni.
Borgarfulltrúar verða nú að klípa af því fé sem þeir fá og verja til þess sem ætlað er í stað þess að ganga að fjölmiðlunum vísum í vinnuaðstöðu sinni. visir/arnþór
Skrifstofa borgarstjórnar kaupir alla helstu prentmiðla sem koma út á Íslandi; Morgunblaðið, DV, Viðskiptablaðið, Stundina og Frjálsa verslun. Hefur gert og mun gera eftir sem áður.

Í frétt Vísis fyrr í morgun var greint frá því að skrifstofa borgarstjóra væri búin að segja upp áskriftum að fjölmiðlum. Og var meðal annars rætt við Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur vegna málsins, en henni þótti þetta einkennileg ráðstöfun. Upplýsingar skoluðust til og er beðist velvirðingar á því, það er ekki skrifstofa borgarstjóra, heldur skrifstofa borgarstjórnar, sem hefur sagt upp áskriftunum. Í sparnaðarskyni, eins og fram kom.

Bjarni Brynjólfsson upplýsingastjóri borgarinnar áréttar þetta og segir að borgarstjóri muni eftir sem áður lesa blöðin.

„Það er hins vegar skrifstofa borgarstjórnar sem hefur ákveðið að segja upp áskriftum. Sú skrifstofa hefur verið að kaupa áskrift að DV og Morgunblaðinu. Og ég held að það hafi verið keypt inn tvö eintök af hvoru blaði. Annað þessara eintaka hefur verið til afnota fyrir borgarfulltrúa í Tjarnargötu þar sem þeir hafa sína aðstöðu. Því var hætt frá og með 1. september, vegna þess að borgarfulltrúar fá allir greiddar 36 þúsund og fjögur hundruð krónur á mánuði, einmitt til að standa straum að kaupum á meðal annars fjölmiðlum, bókum og slíku. Einmitt til að halda sér upplýstum. Þetta er föst fjárhæð á mánuði, að frádreginni staðgreiðslu til að mæta persónulegum starfskostnaði sem slíkum. Þetta á Sveinbjörg Birna að vita, og ákvörðunin um að segja upp áskriftunum er tekin í sparnaðarskyni. Skrifstofa borgarstjórnar. Borgarstjóri mun áfram lesa og styðja íslenska prentmiðla,“ segir Bjarni Brynjólfsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×