Enski boltinn

Carragher um vandræði Sterling: Ég gerði líka mistök á hans aldri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Raheem Sterling.
Raheem Sterling. Vísir/Getty
Jamie Carragher, fyrrum leikmaður Liverpool og nýverandi knattspyrnuspekingur hjá Sky Sports, hefur ekki áhyggjur af Raheem Sterling sem hefur enn á ný komið nafni sínu í óheppilegu fyrirsagnirnar.

Enska blaðið The Sun birti í gærkvöldi myndir af Sterling sem virðast sýna að hann hafi fallið í yfirlið eftir að hafa tekið inn hláturgas. Sterling lét áður mynda sig við að reykja vatnspípu en hann hefur einnig verið mikið í umfjöllun fjölmiðla eftir að hann hafnaði samningstilboði Liverpool sem bauð honum 100 þúsund pund í vikulaun.

Raheem Sterling skoraði fyrra mark Liverpool-liðsins í 2-0 sigri á Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.

„Ég held að hann eigi eftir að eiga langan og farsælan feril. Hann er efni í súperleikmann og við höfðum séð merki þess bæði með Liverpool og enska landsliðinu," sagði Jamie Carragher.

„Það er ekki vafi í mínum huga að eftir nokkur ár mun hann líta á síðustu sex til tólf mánuði sem mjög lærdómsríkan tíma," sagði Carragher.

„Það gera allir mistök á þessum aldri. Ég gerði líka mistök svona ungur en það sem er mikilvægast er að menn læri af þeim. Raheem Sterling þarf að vera á baksíðunum (íþróttaumfjöllun bresku blaðanna) en ekki forsíðunum," sagði Carragher.

„Það hefur verið vandamálið hjá honum síðustu mánuði en vonandi lærir hann af þessu. Hann er efni í mjög góðan leikmann," sagði  Carragher.

„Hann er einn af bestu sóknarmönnum Liverpool. Gleymdu samningum og peningum. Besta leiðin til að sanna virði sitt er að spila vel. Ekki segja fólki hversu góður þú ert, sýndu þeim það," sagði Carragher.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×