Körfubolti

Valskonur ekki í neinum vand­ræðum á heima­velli

Aron Guðmundsson skrifar
Frá leik Vals fyrr á tímabilinu
Frá leik Vals fyrr á tímabilinu vísir/Vilhelm

Valur tyllti sér í þriðja sæti Bónus deildar kvenna með stórsigri á Hamar/Þór í kvöld. Lokatölur í N1 höllinni að Hlíðarenda, 98-67, þrjátíu og eins stigs sigur Vals.

Eins og lokatölur leiksins gefa til kynna voru yfirburðir Valskvenna í leiknum miklir. Fyrsti leikhluti var þó jafn og munaði aðeins tveimur stigum á milli liðanna, 22-20, að honum loknum en í næstu leikhlutum tók forysta Vals að stækka og endaði svo í téðum þrjátíu og eins stigs sigri liðsins. 

Alyssa Marie Cerino var stigahæst í liði Vals í kvöld með 21 stig, þá tók hún einnig níu fráköst. Í fráköstunum var hins vegar Ásta Júlía Grímsdóttir atkvæðamest með tólf fráköst og þá sá Reshawna Rosie Stone um að mata liðsfélaga sína með stoðsendingum, hún var með níu slíkar í leik kvöldsins. 

Sigur Valskvenna sér til þess að þær tylla sér í þriðja sæti deildarinnar og eru þar með jafnmörg stig og lið Grindavíkur í öðru sæti, sem og lið KR í fjórða sæti og eru þessi þrjú lið tveimur stigum á eftir toppliði Njarðvíkur.

Njarðvík, Grindavík og KR eiga öll leiki til góða á Val annað kvöld og því mun niðurröðun þessara liða á toppi deildarinnar væntanlega breytast eitthvað þá. 

Eftir sinn fyrsta sigur í deildinni í síðustu umferð gegn Keflavík þurftu leikmenn Hamars/Þórs að sætta sig við tap í kvöld. Liðið er áfram í neðsta sæti deildarinnar með tvö stig. Sama stigafjölda og Ármann sem vermir næsta sæti fyrir ofan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×