Innlent

Umhverfismat háð annmörkum

Sveinn Arnarsson skrifar
Landsnet hefur lengi viljað leggja nýja Blöndulínu til að styrkja raforkuflutninga á landinu. Telur stofnunin byggðalínuna hringinn í kringum landið löngu sprungna. Landeigendur í Skagafirði og Eyjafirði hafa lengi barist fyrir því að Blöndulína fari á sumum svæðum í jörð.
Landsnet hefur lengi viljað leggja nýja Blöndulínu til að styrkja raforkuflutninga á landinu. Telur stofnunin byggðalínuna hringinn í kringum landið löngu sprungna. Landeigendur í Skagafirði og Eyjafirði hafa lengi barist fyrir því að Blöndulína fari á sumum svæðum í jörð. vísir/vilhelm
Skipulagsstofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu að annmarkar hafi verið á umhverfismatsferli Landsnets varðandi lagningu Blöndulínu 3 frá Blöndu í Húnavatnssýslu að tengivirki að Rangárvöllum í Eyjafirði. Landsnet hafi ekki kannað kosti þess að setja línuna í jörð þrátt fyrir beiðni Skipulagsstofnunar.

Ólafur Valsson, eigandi jarðarinnar Hóla í Öxnadal, krafðist endurupptöku matsins, meðal annars á þeim grundvelli að ekki hafi verið bornir saman þeir valkostir að leggja jarðstreng og loftlínu. Skipulagsstofnun taldi sér ekki heimilt að taka málið upp að nýju, en lagði til grundvallar að meta hefði átt þann kost að leggja jarðstreng í stað loftlínu.

Skipulagsstofnun lagði fyrir Landsnet árið 2008 að meta jarðstreng til samanburðar við loftlínu á þessari leið sem er um eitt hundrað kílómetra löng. Svonefnd frummatsskýrsla, sem Landsnet skilaði til Skipulagsstofnunar í mars 2012, hafði ekki að geyma slíkt mat að mati stofnunarinnar.

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir
Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, telur að þrátt fyrir augljósa annmarka geti stofnunin ekki tekið málið upp að nýju. „Til þess þurfum við að hafa lagalegar heimildir og eins og er rakið í bréfi til Ólafs er talað um hvaða heimildir við höfum. Það sem við gerum er að við förum í öll þau efnisatriði sem málsaðili vekur máls á til að skoða hvort efnislegir annmarkar eru á málinu sem er óháð því hvort það séu lagalegar heimildir til að taka málið upp aftur,“ segir Ásdís Hlökk. „Hins vegar munum við hafa þetta mál til hliðsjónar þegar sambærileg mál koma inn á borð hjá okkur.“

Skagfirðingar og Eyfirðingar hafa kallað eftir því að jarðstrengur verði kannaður sem alvöru valkostur en Landsnet hefur hingað til ekki gert það. „Ljóst er að héðan í frá muni Skipulagsstofnun ekki taka við frummatsskýrslum frá Landsneti í sambærilegum málum nema jarðstrengur sé tekinn til raunhæfrar skoðunar. Ég mun ekki leyfa loftlínu um land mitt. Umrætt landsvæði hefur mikið verndargildi á landsvísu að áliti Náttúrufræðistofnunar Íslands og nýtur það verndar lögum samkvæmt,“ segir Ólafur Valsson, eigandi Hóla í Öxnadal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×