Arsenal verður á toppi ensku úrvalsdeildarinnar um áramótin en það varð ljóst eftir markalaust jafntefli Leicester og Manchester City í kvöld.
Þetta var fyrsta markalausa jafntefli Leicester á tímabilinu en liðið er nú með 39 stig, rétt eins og Arsenal en með lakara markahlutfall. City er svo í þriðja sætinu með 36 stig, einu meira en Tottenham.
Leicester hefur nú ekki unnið í síðustu tveimur leikjum sínum en tímabilið hefur engu að síður verið frábært fyrir liðið. Lærisveinar Claudio Ranieri hafa komið öllum að óvörum og aðeins tapað tveimur leikjum í allt haust. Þar að auki hefur liðið skorað flest mörk allra liða í deildinni eða 37 talsins.
City fékk fleiri færi í leiknum í kvöld en Kasper Schmeichel varði þrívegis frá Raheem Sterling í fyrri hálfleik. Jamie Vardy, sóknarmaður Leicester, fékk þó eitt hættulegasta færi leiksins er hann skaut yfir úr góðu færi.
Sergio Agüero komst einnig nálægt því að skora snemma í síðari hálfleik en hann var svo skipt af velli, sem virtist fara illa í Argentínumanninn.
City-menn áttu alls 21 skot að marki í leiknum í kvöld en varnarleikur Leicester bjargaði stigi fyrir heimamenn að þessu sinni.
Leicester komst ekki aftur á toppinn
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
