Innlent

Innanríkisráðherra vill flýta opnun Norðfjarðarganga

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Ólöf Nordal innanríkisráðherra.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra. vísir/ernir
Innanríkisráðuneytið hefur beðið Vegagerðina um að kanna hvort hægt verði að flýta verklokum við ný Norðfjarðargöng. Stefnt er á að klára verkið í lok árs 2016, en fyrirhugað var að opna göngin síðsumars 2017.

Þetta kemur fram á vef Austurfréttar, en þar segir að Ólöf Nordal innanríkisráðherra hafi greint frá þessum fyrirætlunum á opnum fundi sjálfstæðismanna í Fjarðabyggð í gærkvöldi. Hún sagðist þar tilbúin að beita sér fyrir því að hliðrað verði til fjármunum til að hægt verði að flýta opnuninni, ef þess þurfi.

Gangnagreftrinum sjálfum lýkur síðdegis í dag en gert er ráð fyrir að Ólöf sprengir þá síðasta haftið. Framundan er vinna við styrkingar og lokafrágang gangnanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×