Innlent

Aldrei fleiri þátttakendur í heilu maraþoni

Jóhann Óli EIðsson skrifar
Fyrstu hlauparar í Reykjavíkurmaraþoninu voru ræstir af stað í Lækjargötu klukkan 08.40 en það voru þeir sem hlaupa maraþon, hálfmaraþon og boðhlaup. Tíu kílómetra hlaupararnir fóru af stað nú klukkan hálftíu.

Þetta er í 32. sinn sem Reykjavíkurmaraþonið fer fram en þátttakendur í ár eru tæplega 15.000. Nýtt met var sett í fjölda þeirra sem hlaupa heilt maraþon en þeir eru alls 1.267. Gamla metið var 1.044. Tæplega 3.000 erlendir hlauparar frá sjötíu löndum eru skráðir til leiks og hafa aldrei verið fleiri.

Klukkan korter yfir tólf fer þriggja kílómetra skemmtiskokkið af stað og klukkan 13.20 fara sex til átta ára krakkar af stað í 1,3 kílómetra Latabæjarhlaup. Boðið verður upp á 550 metra hlaup fyrir þá sem er yngri en sex ára og verður það ræst af stað klukkan 13.35.

Þeir sem hlaupa í dag hafa getað safnað áheitum inn á vefsíðunni hlaupastyrkur.is. Alls hafa sjötíu milljónir safnast en söfnuninni lýkur á miðnætti á mánudag og því líklegt að sú tala komi til með að hækka.


Tengdar fréttir

Áhorfendur taka þátt í flugeldasýningunni

Sigga Soffía stýrir flugeldasýningunni í síðasta sinn í ár. Hún verður tvískipt og verður seinni hlutinn sýndur í Borgarleikhúsinu í haust af Íslenska Dansflokknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×