Innlent

Vökudeild þröngt sniðinn stakkur þegar kemur að húsnæðismálum

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Læknir á vökudeild Landspítalans segir deildinni þröngt sniðinn stakkurinn þegar kemur að húsnæðismálum. Vilji sé meðal starfsfólks að gera það sem það geti til að gera foreldrum kleift að vera hjá börnum sínum og markvisst hefur verið unnið að því síðustu fjögur árin.

Árlega leggjast á bilinu 500 til 600 börn inn á vökudeild Landspítalans á Barnaspítala Hringsins. Auk þess kemur sambærilegur fjöldi barna í skemmri tíma á deildina. Nokkuð álag er oft á deildinni.

Margrét Thorlacius, deildarstjóri vökudeildar, segir foreldra geta dvalið með börnum sínum á deildinni nóttunni ef þeir kjósa svo en þó vanti upp á aðstöðuna fyrir þá. „Við höfum ekki almennt rúm eða sérherbergi fyrir alla foreldra. Við höfum svona rafknúna hægindastóla sem að eru allmargir á deildinni og gjafir sem að hafa borist og foreldrar geta verið þar ef þeir sem sagt treysta sér ekki  til að fara frá barni,“ segir Margrét.

Margrét segir að frá árinu 2011 hafi markvisst verið unnið að því að bæta aðstöðuna á deildinni svo foreldrar og börn geti átt meiri tíma í næði saman. „Hópur barna sem að geta farið í sérbýli sem við höfum aðgang að og nýtum eins vel og við getum og höfum verið að þróa okkur þar síðustu árin og getum fylgst með börnunum inni á deildinni hjá okkur og hérna þar er aðstaðan sem sagt, foreldrar geta sofið þar, salerni og sturta,“ segir Margrét.

Notuð eru skilrúm á deildinni til að auka næði foreldra og sérstök heyrnartól. Sérfræðingur á deildinni segir mikilvægt að unnið sé enn frekar að því að bæta aðstöðuna svo foreldrar geti varið sem mestum tíma með börnum sínum.

„Það þarf eiginlega tvennt til og náttúrulega það augljósasta sem er húsnæðið og þar er okkur svolítið þröngt sniðinn stakkurinn. Hitt er náttúrulega okkar hugarfar að við raunverulega viljum sjá til þess að foreldrar og börn séu saman og það skiptir ekki síður máli og ég held að við séum öll komin þangað. Allavega viljum við gera það sem við getum til þess að gera foreldrum kleift að vera hjá börnunum sínum,“ segir Hrólfur Brynjarsson sérfræðingur í nýburalækningum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×