Erlent

Bretar ganga til kosninga á morgun

Samúel Karl Ólason skrifar
Ed Milliband leiðir verkamannaflokkinn, David Cameron Íhaldsflokkinn, Nick Clegg leiðir Frjálslynda Demókrata og Nick Clegg leiðir Frjálslynda Demókrata og Nicola Sturgeon Skoska Þjóðarflokkinn.
Ed Milliband leiðir verkamannaflokkinn, David Cameron Íhaldsflokkinn, Nick Clegg leiðir Frjálslynda Demókrata og Nick Clegg leiðir Frjálslynda Demókrata og Nicola Sturgeon Skoska Þjóðarflokkinn. Vísir/EPA
Íbúar Bretlands munu ganga til þingkosninga á morgun, en í dag eru frambjóðendur á hlaupum við að reyna að laða fleiri kjósendur að málstað sínum og vara kjósendur við afleiðingunum af því að andstæðingar þeirra komist til valda. Skoðanakannanir benda til þess að enginn flokkur nái hreinum meirihluta.

Hins vegar má sjá úr skoðanakönnunum að Skoski þjóðarflokkurinn muni vinna stórsigur í kosningunum. Flokkurinn er líklegur til að fylla meirihluta þeirra 59 þingsæta sem í boði eru í Skotlandi samkvæmt BBC. Hins vegar hafa leiðtogar stóru flokkanna sagst ekki vilja vinna með SNP flokknum.

Sjá einnig: Sturgeon stefnir í lykilstöðu.

David Cameron, núverandi forsætisráðherra, leiðir Íhaldsflokkinn. Ed Milliband leiðir verkamannaflokkinn. Nick Clegg leiðir Frjálslynda Demókrata og Nicola Sturgeon leiðir Skoska þjóðarflokkinn.

Bretlandi er skipt upp í 650 kjördæmi og frá hverju þeirra er einn þingmaður sem tekur sæti á breska þinginu. Í Englandi eru 533 kjördæmi, 59 í Skotlandi, 40 í Wales og 18 í Norður-Írlandi.

Kjörstaðir munu opna klukkan sex í fyrramálið, að íslenskum tíma, og loka klukkan níu.

Evrópa fylgist náið með

Evrópusambandið fylgist náið með kosningunum í Bretlandi. Á vef BBC segir að niðurstöður kosninganna gætu sýnt fram á hve líklegt Bretland er til að yfirgefa Evrópusambandið.

Þrátt fyrir að Evrópa hafi lítið verið rædd sérstaklega fyrir kosningarnar hefur David Cameron til að mynda heitið því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Bretlands í ESB fyrir árið 2017. Verkamannaflokkurinn hefur ekki útilokað að halda slíka atkvæðagreiðslu. Embættismenn í Brussel gera ráð fyrir því að einhvers konar atkvæðagreiðsla um veru Bretlands í Evrópusambandinu verði haldin.

Margir leiðtogar ESB hafa sagt opinberlega að vilji sé fyrir því að Bretland verði áfram í sambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×