Innlent

Opinberir starfsmenn veikir mánuð á ári

Samúel Karl Ólason skrifar
Langtímafjarvera var ríflega þrefalt algengari hjá hinu opinbera.
Langtímafjarvera var ríflega þrefalt algengari hjá hinu opinbera. Vísir/Getty
Áætluð fjarvera starfsfólks vegna veikinda er tvöfalt meiri á opinberum vinnustöðum en á almennum. Þetta kemur fram í niðurstöðum þróunarverkefnisins: Virkur vinnustaður. Í tilkynningu frá Viðskiptaráði segir að mismunur af þessari stærðargráði valdi um 11 milljarða króna kostnaðarauka fyrir opinbera á hverju ári. Brýnt sé að kanna nánar ástæður þessa mismunar.

Niðurstöðurnar byggja á skráningu veikindadaga yfir þriggja mánaða tímabil á 25 vinnustöðum með um 1.400 starfsmenn.

Að meðaltali var fjöldi fjarverudaga á hvern starfsmann í fyrra 20 dagar hjá hinu opinbera en tíu í einkageiranum. Opinberir starfsmenn voru veikir rúmlega fimm sinnum yfir árið samanborið við rúmlega þrisvar sinnum á einkareknu vinnustöðunum. Langtímafjarvera var ríflega þrefalt algengari hjá hinu opinbera.

Í tilkynningu Viðskiptaráðs segir að áðurnefndur kostnaður valdi hærri sköttum eða minni gæðum opinberrar þjónustu.

Mun ríflegri veikindaréttur

Veikindaréttur hjá hinu opinbera er mun ríflegri en á almennum vinnumarkaði og er hann allt að tífaldur í þeim tilfellum sem starfsmaður hefur verið í sex mánuði í starfi. Viðskiptaráð áætlar að þetta mikla svigrúm sé veigamikill áhrifaþáttur þegar horft sé til fjarveru opinberra starfsmanna vegna veikinda.

„Það undirstrikar jafnframt mikilvægi þess að meta einnig starfsréttindi – líkt og veikindarétt – þegar launakjör á opinberum og almennum vinnumarkaði eru borin saman,“ segir í tilkynningunni. Viðskiptaráð telur að yfirstandandi kjaraviðræður við Bandalag háskólamanna skapi tækifæri til að samræma starfsréttindi á almennum og opinberum vinnumarkaði.

„Með afnámi umframréttinda opinberra starfsmanna væri unnt auka svigrúm til hækkunar grunnlauna opinberra starfsmann líkt og forsvarsmenn bandalagsins hafa barist fyrir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×