Innlent

Hræddir kettir eftir slæma vist

Höskuldur Kári Schram skrifar
Rekstrarstjóri Kattholts segir að þeir kettir sem var bjargað úr iðnaðarhúsnæði í Reykjavík í síðustu viku séu hræddir og illa á sig komnir eftir slæma vist. Hún vonast til þess að þeir finni nýtt heimili á næstu mánuðum.

Það var Matvælastofnun sem kom köttunum til bjargar en þá hafði stofnunin fengið ábendingar um umfangsmikið kattahald í iðnaðarhúsnæði í höfuðborginni. Alls fundust 50 kettir inni í húsnæðinu við bágar aðstæður þar sem umönnun og þrifnaði var verulega ábótavant.

Húsráðandi var handtekinn en lóga þurfti tveimur köttum eftir skoðun dýralæknis. Hinum  var komið fyrir hjá Dýrahjálp og í Kisukoti og þá fengu ellefu skjól í Kattholti.

„Þeir eru bara mjög hræddir greyin og þurfa sinn tíma til að jafna sig og aðlagast,“ segir Halldóra Björk Ragnarsdóttir, rekstrarstjóri Kattholts.

Hún vonast til þess að þeir muni finna nýtt heimili á næstu mánuðum en segir að það muni taka einhvern tíma fyrir þá að jafna sig að fullu.

„Það er spurning hvað þeir verða gæfir og góðir í það að verða heimiliskettir. Svona kettir verða alltaf hvekktir þegar þeir eru búnir að vera í svona stórum hóp. Þetta mun taka einhvern tíma,“ segir Halldóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×