Innlent

Fær bætur vegna handtöku í nauðgunarmáli

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Maðurinn var sýknaður af fjögurra og hálfs árs nauðgunardómi. Hann fær bætur frá ríkinu vegna handtökunnar.
Maðurinn var sýknaður af fjögurra og hálfs árs nauðgunardómi. Hann fær bætur frá ríkinu vegna handtökunnar. vísir/gva
Íslenska ríkinu hefur verið gert að greiða karlmanni, sem sýknaður var í Hæstarétti eftir að hafa verið sakfelldur fyrir nauðgun, alls 275 þúsund krónur í skaðabætur vegna handtöku, líkamsrannsóknar og vistunar í fangaklefa árið 2011. Hann hafði farið fram á fjórar milljónir, meðal annars vegna sakfellingar að ósekju.

Maðurinn var í Héraðsdómi Reykjavíkur í janúar 2013 dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir nauðgun. Honum var gefið að sök að hafa, ásamt öðrum karlmanni, dregið tæplega nítján ára stúlku inn í bíl sem var fyrir utan veitingastað við Hlemm og svo borið hana inn í íbúð í Reykjavík og nauðgað henni. Hinn maðurinn var dæmdur í fimm ára fangelsi og var þeim báðum gert að greiða stúlkunni tvær milljónir króna í miskabætur. Mennirnir eiga báðir langan sakaferil að baki.



Hæstiréttur sneri dómnum í sýknu
 í júní 2013. Dómurinn gagnrýndi niðurstöðu héraðsdóms og sagði að dregnar hefðu verið ályktanir af framburði ætlaðs brotaþola sem ekki fáist staðist. Verulegs misræmis gæti um mikilvæg atriði í framburði stúlkunnar, sem að sumu leyti stangist á við það sem sýnileg sönnunargögn taki tvímæli um.

Maðurinn stefndi íslenska ríkinu í kjölfarið. Hann sagði málið hafa haft mikil áhrif á sig, hann hefði verið fordæmdur af öllum í kringum sig. Hann hafi orðið mjög þunglyndur og hætt í vinnu. Þá hafi hann flutt til útlanda þar sem honum hafi þótt óbærilegt að vera hér á landi, en að erfiðlega hafi gengið að leita að vinnu með sakfellingardóminn á netinu. Lögmaður hans sagði fyrir dómi að vanlíðan mannsins hafi verið mikil, og lýsti ástandi hans sem sálarangist.

Ríkið krafðist sýknu í málinu. Byggði það mál sitt á því að maðurinn hefði sjálfur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum lögreglu sem hann krefjist bóta fyrir. Ekkert venjulegt hafi verið við þá atburðarás sem lýst hafi verið – sjálfur hafi hann viðurkennt „afbrigðilegar samfarir við unga stúlku sem hafi átt erfitt með að verjast“. Ósannað sé að hún hafi samþykkt fyrirfram þau ósköp sem henni hafi verið gerð.

Niðurstaðan varð sú að maðurinn fær frá ríkinu bætur og málskostnaður fellur niður. Þá greiðist málflutningsþóknun lögmanns hans úr ríkissjóði, samtals 650 þúsund krónur.


Tengdar fréttir

Hæstiréttur snýr nauðgunardómi í sýknu

Stefán Logi Sívarsson og Þorsteinn Birgisson hafa verið sýknaðir af ákæru um að hafa nauðgað átján ára stúlku. Hæstiréttur gagnrýnir niðurstöðu héraðsdóms og annmarka á rannsókn lögreglu. Einn dómari af fimm skilar sératkvæði og vill sakfella.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×