Enski boltinn

Wenger: Özil einn sá besti í Evrópu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, lofaði Þjóðverjann Mesut Özil mikið eftir 2-0 sigur liðsins á Bournemouth í kvöld.

Özil lagði upp eitt og skoraði annað í sigrinum en þar með er hann kominn með sextán stoðsendingar á tímabilinu.

Sjá einnig: Arsenal á toppinn og Cech bætti met | Sjáðu mörkin

„Skoðið tölurnar. Stoðsendingarnar tala sínu máli,“ sagði Wenger á blaðamannafundi eftir leikinn. Hann var þá spurður hvort að Özil væri besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar.

„Hann er orðinn alhliða stórkostlegur knattspyrnumaður. Ég er afar, afar ánægður með frammistöðu hans. Hann er sannarlega einn sá besti í Evrópu. Hann er stórkostlegur í sinni stöðu.“

Wenger var spurður um hvort að það væri hægt að líkja honum við Dennis Bergkamp, Hollendinginn sem er einn dáðasti leikmaður Arsenal frá upphafi.

„Bergkamp var meiri markaskorari og Özil var meira í stoðsendingunum. En nú er hann farinn að skora meira þannig að það er hægt að bera þá saman.“

„Tæknin sem hann býr yfir er stórfengleg og ég nýt þess að sjá hvernig hann tímasetur sendingarnar sínar,“ bætti Wenger við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×