Innlent

Varabæjarfulltrúi sendir Elliða kaldar kveðjur: Allir nefndar- og stjórnarmenn séu úr hirð hans

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Elliði Vignisson
Elliði Vignisson vísir/valli
„Það getur ekki verið hollt fyrir nokkurt bæjarfélag að allir þeir sem fara með ábyrgðarstöður á vegum bæjarins komi úr einhverjum þröngum hóp,“ ritar Georg Eiður Arnarsson varabæjarfulltrúi Eyjalistans í Vestmannaeyjum á Eyjar.net.

Í pistli sínum gerir Georg upp árið 2015 frá sínum bæjardyrum. Þar ræðir hann meðal annars um ástand fasteignamarkaðarins í Eyjum, fráfall í fjölskyldu sinni og um lundaveiðar en Georg er einn reyndasti lundaveiðimaður eyjanna. Stærstur hluti pistilsins er hins vegar undirlagður bæjarpólitíkinni þar sem Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, fær kaldar kveðjur.

Georg Eiður Arnarsonvísir/óskar friðriksson
Líkt og áður hefur verið nefnt er Georg varabæjarfulltrúi en auk þess er hann einnig í stjórn Náttúrustofu Suðurlands og í framkvæmda- og hafnarráði bæjarins. Í störfum sínum þar hefur hann lagt fram nokkrar tillögur og bókanir sem síðar eru teknar til umræðu í bæjarstjórn. 

„Meirihlutinn hefur, eins og ég bjóst við, verið á móti öllum tillögum og bókunum frá okkur á Eyjalistanum og það hvarflar að mér að við á Eyjalistanum séum að vinna fyrir bæjarbúa, en meirihlutinn fyrst og fremst fyrir bæjarstjórann og þennan hóp sem er í kring um hann,“ skrifar Georg.

Samkvæmt Georgi virðist það vera annálað markmið bæjarstjórans að koma einhverjum „úr hirðinni“ í allar stjórnir og stofnanir á vegum bæjarins. Nýjasta dæmið segir hann vera að skipstjórinn á Lóðsinum sé ekki lengur varahafnarstjóri. Það hlutverk hafi verið fært í aðrar hendur og opinbera skýringin sé að það hafi verið vegna samstarfsörðugleika.

„Þessu til viðbótar ganga síðan sögusagnir um út um allan bæ um að starf slökkviliðsstjóra, sem hættir núna um áramótin vegna aldurs, standi ekki varaslökkviliðsstjóra til boða, sem starfað hefur í slökkviliði Vestmannaeyja í yfir 40 ár, né heldur eigi að auglýsa stöðuna, heldur standi til að setja þetta mikilvæga starf í hendurnar á einhverjum úr hirðinni í kring um bæjarstjórann.“

Pistilinn endar Georg á því að óska Eyjamönnum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×