Innlent

Lyf reynist hættulegt fólki í geislameðferð

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Fólk leggur ýmislegt á sig til að sóla sig, en sólböðum fylgir aukin hætta á húðkrabbameini. Lyfi við sortuæxlum geta fylgt alvarlegar aukaverkanir.
Fólk leggur ýmislegt á sig til að sóla sig, en sólböðum fylgir aukin hætta á húðkrabbameini. Lyfi við sortuæxlum geta fylgt alvarlegar aukaverkanir. vísir/EPA
Komið hefur í ljós að eituráhrif geislameðferðar geta magnast taki sjúklingar inn lyfið Zelboraf, sem notað er við sortuæxlum sem ekki er hægt að fjarlægja með skurðaðgerð. Dæmi eru um það erlendis að sjúklingar hafi látið lífið vegna þessa.

Lyfjastofnun hefur birt bréf sem send voru til heilbrigðisstarfsmanna í september og október þar sem varað er við þessum áður óþekktu aukaverkunum lyfsins. Þar kemur fram að tilkynnt hafi verið um alvarlega áverka tengda geislun, sem í þremur tilvikum hafi leitt til dauða, hjá sjúklingum sem ýmist fengu geislameðferð fyrir, á meðan eða á eftir að meðferð með Zelboraf-lyfinu lauk.

Hjá átta sjúklingum sem hófu töku lyfsins eftir að geislameðferð var lokið eru dæmi um bráðar bólgur á þeim svæðum sem áður höfðu verið geisluð, fimm í húð, tvö í lungum og eitt í þvagblöðru. Húðviðbrögðin komu ýmist fram sem hörundsroði, siggmein, exem, blöðrur eða sár.

Jakob Jóhannsson, yfirlæknir
Þá voru tólf tilvik um mögnun geislunaráhrifa sem sáust á alvarlegri staðbundnum geislunaráverkum en búast mátti við. „Af þessum tólf tilvikum komu níu fram í húð, þrjú í vélinda, eitt í lifur og eitt í endaþarmi,“ segir í bréfi framleiðanda lyfsins, Roche a/s. Þrjú tilvik leiddu til dauða. Einn fékk geislunardrep í lifur tíu vikum eftir geislameðferð, en hinir tveir sjúklingarnir fengu geislunarbólgu í vélinda.

Jakob Jóhannsson, yfirlæknir á lyflækningasviði Landspítalans sem er yfir geislameðferð á sjúkrahúsinu, segir heilbrigðisstarfsfólk meðvitað um hættuna eftir tilkynningu lyfjafyrirtækisins. Þess verði nú gætt að fólk hætti notkun lyfsins á meðan geislameðferð standi. „En þetta eru nýjar upplýsingar fyrir okkur líka,“ segir hann. Ekki sé vitað til þess að aukaverkanir sem þessar hafi komið upp hér á landi, en það hafi heldur ekki verið kannað sérstaklega. Fremur fátítt sé hins vegar geislameðferð sé beitt hjá fólki með sortuæxli. 

„En þetta sýnir hversu hrikalegar aukaverkanir geta orðið og líka að þótt fram komi ný lyf sem virðast virka vel þá geta þau líka haft mjög alvarlegar aukaverkanir,“ segir hann. Tilkynning Roche sé því áminning til heilbrigðisstarfsfólks um þá gát sem hafa þurfi á. „Ný lyf geta líka haft alvarlegar aukaverkanir og sérstaklega þegar verið er að blanda saman tveimur aðferðum.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×