Innlent

Lögregla kölluð til eftir að maður braut rúður í strætisvagni í miðbænum

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
"Mönnum bregður eðlilega við svona hluti í friðsælu þjóðfélagi eins og Ísland á að vera,“ segir Jóhannes.
"Mönnum bregður eðlilega við svona hluti í friðsælu þjóðfélagi eins og Ísland á að vera,“ segir Jóhannes. vísir/gva
Engan sakaði þegar karlmaður gekk berserksgang í miðbænum á miðvikudag og braut tvær rúður í strætisvagni. Talið er líklegt að maðurinn hafi verið vopnaður og er málið nú í rannsókn lögreglu. Vagnstjóranum hefur verið boðin áfallahjálp.

„Þetta gerðist rétt hjá Ráðhúsinu fyrir tveimur kvöldum. Maðurinn barði í strætisvagninn að utan og braut tvær rúður. Hann hljóp svo bara í burtu og lögregla var kölluð til, en það náðist ekki í manninn,“ segir Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó.

Hann segir litlar upplýsingar liggja fyrir um málið að svo stöddu en að líklega hafi maðurinn notað einhvers konar áhald eða vopn til að brjóta rúður vagnsins. „Það er í raun ekki erfitt að brjóta þessar rúður ef þú ert með eitthvað í höndunum, eitthvað oddhvasst eða þvíumlíkt. Þetta eru svokallaðar öryggisrúður sem á að vera hægt að brjóta.“

Jóhannes segir manninum skiljanlega brugðið. „Þegar svona kemur upp, sem er þó ekki algengt, þá er vagnstjóri tekinn af vaktinni og boðin áfallahjálp. Mönnum bregður eðlilega við svona hluti í friðsælu þjóðfélagi eins og Ísland á að vera,“ segir hann.

Þá bindur hann vonir við að málið leysist fljótt. „Við auðvitað vonumst til að lögregla bregðist fljótt við svo fólk upplifi þetta kerfi sem öruggt og gott. Það skiptir okkur öllu máli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×