Enski boltinn

United verður án Carrick, Martial og Rooney á morgun

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Anthony Martial meiddist á þriðjudaginn.
Anthony Martial meiddist á þriðjudaginn. vísir/getty
Manchester United verður án Michael Carrick, Marouane Fellaini, Antonio Valencia og Anthony Martial á morgun þegar enska úrvalsdeildin fer aftur af stað.

United heimsækir nýliða Watford í fyrsta leik helgarinnar í hádeginu á morgun, en fyrirliðinn Wayne Rooney verður einnig frá vegna veikinda. Þetta staðfesti Louis van Gaal á blaðamannafundi í morgun.

Carrick var borinn af velli í vináttulandsleik Englands gegn Spáni fyrir viku síðan og gæti verið frá í nokkra mánuði.

Martial fékk högg á fótinn í leik gegn Englandi á Wembley á þriðjudagskvöldið og yfirgaf leikvanginn á hækjum. Hann verður heldur ekki með.

Anthony Martial er næst markahæsti leikmaður Manchester United í deildinni með þrjú mörk en Wayne Rooney er búinn að skora tvö mörk.

Líklega fær hinn ungi James Wilson tækifæri á ný í framlínu liðsins, en markahæsti leikmaður liðsins, Juan Mata (4 mörk) verður væntanlega með.

Manchester United er í fjórða sæti deildarinnarm eð 24 stig og getur komist á toppinn í nokkra klukkutíma með sigri gegn Watford í hádeginu á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×