Enski boltinn

Pulis: Takið yfir laun leikmanna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Tony Pulis, stjóri West Brom, telur að knattspyrnusambönd heimsins eigi að taka yfir laun landsliðsmanna sinna þegar þeir eru kallaðir í vináttulandsleiki.

Pulis er í hópi þeirra knattspyrnustjóra sem hafa gagnrýnt hversu margir vináttulandsleikir fara fram og segir að þeir séu tilgangslausir.

„Við skulum sjá hversu margir vináttulandsleikir færu fram ef knattspyrnusambönd þyrftu að borga tveggja vikna laun þeirra, allan kostnað af meiðslum og tryggingar ef meiðslin binda enda á ferilinn þeirra,“ sagði Pulis.

Einn þeirra leikmanna sem Pulis „missti“ í vináttulandsleik var Gareth McAuley sem spilaði allan leikinn er Norður-Írland vann Lettland, 1-0.

„Það eru margir leikir á þessum árstíma. Hann spilar alla leiki fyrir okkur og spilar svo 90 mínútur fyrir landsliðið sitt. Ég er ekki viss um að ég kysi það ef ég væri landsliðsþjálfari,“ sagði hann.

„Ég er ekki að gagnrýna landsliðsþjálfara Norður-Írlands. Þetta er á hans ábyrgð og hann gerir það sem hann vill.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×