Sport

Eygló og Hrafnhildur mæta Bandaríkjunum með úrvalsliði Evrópu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hrafnhildur Lúthersdóttir og Eygló Ósk Gústafsdóttir hafa átt frábært ár.
Hrafnhildur Lúthersdóttir og Eygló Ósk Gústafsdóttir hafa átt frábært ár. vísir/stefán/daníel
Eygló Ósk Gústafsdóttir og Hrafnhildur Lúthersdóttir hafa báðar verið valdar í úrvalslið Evrópu í sundi sem mætir úrvalsliði Bandaríkjanna í Indianapolis í byrjun desember.

Um er að ræða keppnina Duel in the Pool eða Einvígið í lauginni sem fram fer annað hvert ár. Einvígið hófst árið 2003, en í fyrstu þremur keppnunum mættu Bandaríkin liði Ástralíu.

Evrópa hefur mætt Bandaríkjunum síðan 2009, en Bandaríkin hafa unnið allar keppnirnar hingað til. Síðast var keppt í Glasgow fyrir tveimur árum og höfðu Bandaríkin þá nauman sigur eftir að rústa Evrópu 2009 og 2011.

Margir af bestu sundköppum Bandaríkjanna hafa keppt í Einvíginu í lauginni, en nú síðasta var Katie Ledecky á meðal keppenda fyrir tveimur árum. Missy Franklin og Ryan Lochte, margfaldir heims- og Ólympíuverðlaunahafar, kepptu svo fyrir fjórum árum.

Þetta er stór og mikill áfangi fyrir Eygló og Hrafnhildi sem báðar hafa staðið sig frábærlega á árinu. Báðar komust þær í úrslit á HM í 50 metra laug í Kazan í Rússlandi fyrr á árinu.

Baksundssérfræðingurinn Eygló Ósk komst í úrslit í 200 metra baksundi og Hrafnhildur synti sig í úrslitin í 50 og 100 metra bringusundi.

Einvígið í lauginni fer fram 11.-12. desember í sundlaug háskólans í Indiana. Meira má lesa um það hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×