„Það virðast vera tvenns konar tilhneigingar,“ segir Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
„Önnur er sú að þegar flokkurinn er í stjórnarandstöðu þá gengur honum betur en í stjórn. Það virðist vera eftir hrun töluverð fylgisleg áhætta samfara því að vera í ríkisstjórn. En jafnvel þótt þú takir tillit til þess þá er þetta slæm niðurstaða ef þú berð saman við árið 2009 þegar hann var að koma úr gríðarlega vondum málum,“ segir Gunnar.
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar féll þann 26. janúar 2009. Á landsfundi flokksins níu vikum síðar var flokkurinn með nærri 30 prósenta fylgi.

„Ég held að akkúrat þessi tala nú endurspegli að einhverju leyti Hönnu Birnu og Illuga. Ég hef engar kannanir sem sanna það en reynslan af áhrifum slíkra mála sem ég þekki til alþjóðlega er að þau hafa einhver áhrif. Hversu mikil veit maður ekki,“ segir Gunnar.
Hann á við lekamálið svokallaða en Hanna Birna Kristjánsdóttir þingmaður þurfti að segja af sér embætti innanríkisráðherra þegar aðstoðarmaður hennar lak persónuupplýsingum um hælisleitanda til Fréttablaðsins og Morgunblaðsins. Þá hefur Illuga Gunnarssyni menntamálaráðherra verið legið á hálsi fyrir að eiga í óeðlilegu viðskiptasambandi við Orku Energy og greiða götu fyrirtækisins í Kína.
En telur Gunnar landsfundurinn geti gefið Sjálfstæðisflokknum byr í seglin að nýju? „Meginreglan er sú að fyrst eftir landsfund þá gengur flokkum aðeins betur en það er fljótt að fara aftur.“
Fréttablaðið hafði samband við nokkra þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Þeir bjuggust ekki við miklum átökum um málefnin og höfðu ekki áhyggjur af að umræður um Evrópusambandið drægjust á langinn. Nýmæla væri að vænta í málefnum hælisleitenda til að bregðast við flóttamannafjöldanum í Evrópu og Sýrlandi.