Lífið

Kjötsúpa fyrir alla

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Bolli Ófeigsson, Ólöf Arnarls, Gústaf Axel Gunnlaugsson og Ófeigur Björnsson hita upp kjötsúpudaginn fyrir utan Hegningarhúsið í gær.
Bolli Ófeigsson, Ólöf Arnarls, Gústaf Axel Gunnlaugsson og Ófeigur Björnsson hita upp kjötsúpudaginn fyrir utan Hegningarhúsið í gær.
„Við erum bara að búa til góða stemmingu í miðbænum og fá fólk til þess að koma í bæinn,“ segir Bolli Ófeigsson, í Gullsmiðju Ófeigs. Kjötsúpudagurinn verður haldinn hátíðlegur í þrettánda sinn í dag á Skólavörðustígnum. Það eru Samtök kaupmanna á Skólavörðustígnum sem standa fyrir hátíðinni sem er alltaf haldin fyrsta vetrardag og gefa margir af fremstu matreiðslumönnum landsins vinnu sína á þessum degi. Það eru meistarakokkar frá veitingastöðunum Ostabúðinni, Þremur Frökkum, KOL, Café Loka og Sjávargrillinu sem bjóða upp á rjúkandi heitar súpur, hver með sínum hætti.

„Kjötsúpudagurinn er hugmynd Jóhanns G. Jóhannssonar heitins, og pabba míns, Ófeigs Björnssonar. Þeir voru að velta fyrir sér hvað væri hægt að gera sniðugt fyrir miðbæinn og þá fékk Jóhann þessa hugmynd,“ segir Bolli sem rekur Gullsmiðju Ófeigs ásamt foreldrum sínum.

Alls verður boðið upp á kjötsúpu á fimm stöðum og fengu fangarnir í Hegningarhúsinu fyrsta skammtinn af súpunni í gær samkvæmt árlegri hefð. „Þeir fá alltaf fyrsta skammtinn en þetta er í síðasta skipti sem það verður því á næsta ári verða ekki fangar í Hegningarhúsinu,“ segir Bolli.

Mikið fjölmenni hefur komið á hátíðina undanfarin ár. „Það hafa verið að koma 9-10 þúsund manns undanfarin ár og þetta eru 1000 lítrar af súpu sem eru að fara ,“ segir hann.

Tilgangurinn er að fagna fyrsta vetrardegi og um leið hvetja fólk til þess að gera sér ferð á Skólavörðustíginn og sjá hvað hann hefur upp á að bjóða. „Það eru margir sem koma aldrei í miðbæinn nema til þess að fara á fyllerí og út að borða. Við viljum fá fólk hingað á kristilegum tíma,“ segir Bolli. Hann segir ferðamennina halda uppi miðbænum um þessar mundir. „Ég er farinn að sakna Íslendingana.“

Kjötsúpuhátíðin hefst klukkan 14 og stendur til klukkan 16 eða meðan birgðir endast.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.