Innlent

Átti ekki í önnur hús að venda en fangageymslur lögreglu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fangelsið á Akureyri.
Fangelsið á Akureyri. vísir/auðunn
Hollensk kona, sem losnaði úr gæsluvarðhaldi úr fangelsinu á Akureyri í gær, gisti í nótt í fangageymslum lögreglunnar á Akureyri. Hún var allslaus þegar hún losnaði úr gæsluvarðhaldi og var meðal annars án peninga og skilríkja samkvæmt heimildum Vísis.

Konan sætir nú farbanni eftir að Hæstiréttur hafnaði kröfu lögreglustjórans á Austurlandi um að hún yrði áfram í gæsluvarðhaldi. Konan var handtekin, ásamt eiginmanni sínum, á Seyðisfirði í byrjun september, grunuð um að flytja um 80 kíló af MDMA hingað til lands með Norrænu. Maðurinn sætir enn gæsluvarðhaldi til 3. nóvember.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Austurlandi er konan nú á eigin vegum. Við handtöku var lagt hald á persónulega muni konunnar og mun hún hafa fengið þá í dag, nánar tiltekið þá muni sem hún óskaði eftir og lögreglan taldi rétt að hún fengi.

Í gær tók hins vegar Afstaða, félag fanga, að sér að útvega konunni síma, símanúmer og rútumiða og er hún nú á leiðinni til Reykjavíkur. Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, gagnrýnir yfirvöld fyrir að firra sig ábyrgð á konunni þar sem lögreglan hafi farið fram á að hún skyldi sæta farbanni.

„Þetta er algjörlega fáránlegt að lögreglan skuli firra sig ábyrgð. Þegar manneskja er svipt frelsi, hvort sem það er til fulls eða hluta, þá einfaldlega ber einhver ábyrgð á því og í þessu tilfelli er það lögreglan á Austurlandi,“ segir Guðmundur.

Svala Jóhannesdóttir, verkefnastýra hjá Rauða krossinum í Reykjavík, hefur komið að máli konunnar og segir að hún sé komin með gistingu í Reykjavík í nótt. Þar að auki sé málið komið í farveg hjá borginni sem veitir útlendingum í neyð þjónustu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×