Innlent

80 kíló af MDMA í Norrænu: Sleppt úr gæsluvarðhaldi án peninga og skilríkja

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá aðgerðum tollayfirvalda á Seyðisfirði þegar parið var handtekið.
Frá aðgerðum tollayfirvalda á Seyðisfirði þegar parið var handtekið. vísir
Hollensk kona sem losnaði úr gæsluvarðhaldi í gær var allslaus þegar hún fór úr fangelsinu á Akureyri þar sem hún var í haldi. Samkvæmt heimildum Vísis var hún meðal annars án peninga og skilríkja en ekki liggur fyrir hvar hún dvaldi í nótt.

Lögreglan á Austurlandi lagði hald á persónulegar eigur konunnar þegar hún var handtekin í byrjun september, grunuð um smygl á 80 kílóum af MDMA til landsins. Maðurinn hennar var einnig handtekinn en parið kom hingað með Norrænu og faldi fíkniefnin í húsbíl.

„Í fjárhagskröggum en samt hafi þau ákveðið að fara í dýra Íslandsferð“

Konan sætir nú farbanni til 21. október samkvæmt dómi Hæstaréttar en Héraðsdómur Austurlands hafði áður úrskurðað konuna í gæsluvarðhald. Maðurinn sætir gæsluvarðhaldi til 3. nóvember.

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að ekki sé samræmi með framburði konunnar og mannsins að mati lögreglunnar, meðal annars varðandi það hvert för þeirra var heitið.

Segir í úrskurðinum að konan hafi ekki gefið „skynsamlegar skýringar á þessu ósamræmi. Þá hafi hún borið skýrt um að þau eiginmaðurinn hafi verið í fjárhagskröggum, en samt hafi þau ákveðið að fara í dýra Íslandsferð.“ Konan hafi auk þess ekki gefið skynsamlegar skýringar á því hvaðan hún haldi að peningarnir fyrir ferðinni hafi komið.

Fangelsismálayfirvöld benda á hjálparsamtök

„Í dag klukkan þrjú mun konan fá afhenta þá persónulegu muni sem hún hefur óskað eftir og lögreglan telur rétt að hún fái,“ segir Jónas Vilhelmsson hjá lögreglunni á Austurlandi sem fer með rannsókn málsins.

Páll Winkel fangelsismálastjóri segist ekki geta tjáð sig um einstök mál en lögum samkvæmt megi Fangelsismálastofnun einfaldlega ekki halda manneskju mínútu lengur en gæsluvarðhaldsúrskurður kveður á um.

„Slíkt er brot á lögum og við sem stofnun værum bara skaðabótaskyld ef við værum að halda fólki án dóms og laga. Það sem við getum hins vegar gert er að benda fólki á hjálparsamtök á borð við Rauða krossinn, Hjálpræðisherinn eða félagsþjónustuna,“ segir Páll.

Ekki náðist í verjanda konunnar við vinnslu fréttarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×