Innlent

Skaftá hreif mælitæki Veðurstofunnar með sér

Una Sighvatsdóttir skrifar

Vísindamenn telja mikilvægt að öðlast skilning á því hvers vegna Skaftárhlaup var jafnstórt og raun ber vitni og um leið leggja mat á hvort svo stór hlaup muni endurtaka sig. Hluta af tækjabúnaði Veðurstofu Íslands skolaði burt í hamförunum.

Hættustigi sem lýst var yfir vegna Skaftárhlaupsins þann fyrsta október var formlega aflýst í dag af hálfu Almannavarna. Hlaupið var það stærsta síðan mælingar hófust en vísindamenn vinna enn að því að kortleggja nákvæmlega hversu mikið umfang þess var.

GPS-mælitækið í henglum

Fréttastofa flaug með Veðurstofunni og Landhelgisgæslunni upp að jökli í gær og má sjá myndir úr ferðinni í myndskeiðinu hér að ofan. Markmiðið var meðal annars að reyna að leggja mat á rúmmál sigskálarinnar í Eystri Skaftárkatli, en auk þess var þetta hálfgerður björgunarleiðangur til að forða mælitækjum Veðurstofunnar. Hlaupið reyndist hinsvegar hafa tekið sinn toll.

„Rétt fyrir ofan jökulsporðinn, þar voru gríðarleg ummerki um flóðið," segir Benedikt G. Ófeigsson, jarðvísindamaður hjá Veðurstofu Íslands. Eitt af mælitækjum Veðurstofunnar var ofan á farveginum fyrir hlaupið en það hafði henst langar leiðir burt í atganginum. „Við fundum leifar af því einhverja hundruð metra frá staðnum sem það var sett uphaflega á og það var bara allt í henglum. Og við fundum ekki tækið eða neitt þannig að það hefur mikið gengið á," segir Benedikt.

Reyna að rýna inn í framtíðina

Engu að síður hefur miklu af gögnum verið safnað um bæði aðdraganda og umfang flóðsins og segir Benedikt nú þurfa að leggjast vandlega yfir þau til að reyna að átta sig á því hversu stórt rúmmál flóðsins var. Vegna versnandi skyggnis í gær tókst illa að meta rúmmál sigskálarinnar í jöklinum en þess í stað verður reynt að notast við gervihnattamyndir af katlinum.

„Við þurfum líka að skilja betur af hverju [hlaupið] var svona stórt. Er það bara vegna þess hversu langur tími var á milli flóða eða er einhver önnur skýring? Eru breytingar á katlinum sem við þurfum að hafa auga á?" segir Benedikt og bætir við að miklu skipti fyrir íbúa á svæðinu að vita hvort von sé á því að slíkar hamfarir verði reglulegur viðburður.

„Nú þurfa jöklafræðingar og aðrir vísindamenn sem hafa verið að vinna í þessu að skoða gögnin sem við höfum safnað og reyna að skilja betur hvað gerðist þarna, af hverju þetta var svona stórt og hverju við megum eiga von á í framtíðinni úr Skaftárkötlum."


Tengdar fréttir

Verður stærsta Skaftárhlaup sem sögur fara af

Aldei hefur mælst eins hröð rennslisaukning í Skaftárhlaupi og í gær. Allt stefnir í stærsta flóð frá því sambærilegar mælingar hófust. Hættustigi lýst yfir. Mælir FutureVolc-verkefnisins safnar ómetanlegum upplýsingum enn og aftur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×