Enski boltinn

Van Gaal varar Depay við

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Memphis Depay var ekki í byrjunarliði Manchester United sem vann Everton, 3-0, í ensku úrvalsdeildinni um helgina og hann fékk aðvörun frá stjóranum Louis van Gaal eftir leikinn.

Van Gaal greindi frá því að Depay, sem fór vel af stað í ensku úrvalsdeildinni, hafi verið að fá leiðsögn frá aðstoðarstjóranum Ryan Giggs.

„Leikmaðurinn ber ábyrgð á sínum eigin gjörðum þegar öllu er á botninn hvolft,“ sagði Van Gaal. „Leikmenn verða að virða hugmyndafræði liðsins.“

„Við höfum þegar orðið vitni að leikmönnum sem geta ekki aðlagast hugmyndafræði Manchester United. Það er eitthvað sem ekki er hægt að vita áður en leikmenn eru keyptir. Það er það sem gerðist hjá Angel Di Maria og Radamel Falcao.“

Falcao var í láni hjá Manchester United á síðustu leiktíð en átti erfitt uppdráttar, sem og Angel Di Maria sem var keyptur á metfé frá Real Madrid. Báðir eru farnir frá United.

„Hef ég enn trú á Memphis? Auðvitað,“ sagði Van Gaal sem vildi ekki segja hvað Depay þyrfti að gera til að bæta sitt ráð. „Vandamálið við unga leikmenn eru að þá skortir stöðugleika. Það verða þeir að læra og þeir verða að fá tíma til þess.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×