Innlent

Fréttir Stöðvar 2: Íbúar slegnir yfir atburðum næturinnar

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Sigurlína Halldórsdóttir, íbúi í Írabakka, vaknaði upp við vondan draum í nótt. Barnabörnin hennar tvö voru að gista hjá henni þegar mikill eldur kom upp í húsinu, og bjarga þurfti þeim niður af svölum íbúðarinnar.

„Ég hef aldrei lent í svona. Guð bara forði að fólk lendi í öðru eins. Maður hefur ekkert eiginlega sofið í nótt og er bara að reyna að jafna sig,“ segir Sigurlína sem býr á þriðju og efstu hæð hússins.

Allt tiltækt lið var kallað út á þriðja tímanum í nótt. Þegar fyrstu liðsmenn mættu á staðinn lagði þykkan svartan reyk upp úr kjallaranum og upp allan stigaganginn. Reykkafarar fóru í kjallarann og réðust gegn eldinum sem logaði glatt. Aðrir reistu stiga utan á húsinu og björguðu alls þrettán manns niður af svölum. Einn var fluttur á slysadeild.

Sjálf segist Sigurlína slegin yfir atburðum næturinnar. Þá hafi börnin orðið afar skelkuð en hefur orð á því að slökkviliðið hafi unnið gott starf, og segist þakklát. Núna hins vegar verði tíminn að leiða í ljós hver næstu skref verði.

„Hvað á maður að gera, hvert er næsta skref? Því það á að fara að gera við allt hérna og maður þarf að flytja, en ég veit ekki hvert, þannig að það er allt bara í lausu loftu,“ segir hún.

Stöð 2 náði tali af Sigurlínu og barnabörnum hennar, þegar hún var að taka saman eigur sínar til að flytja tímabundið til dóttur sinnar.  Rætt verður við Sigurlínu og fleiri íbúa hússins í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×