Innlent

Ákærður fyrir að beita barnsmóður sína ofbeldi: Þarf að víkja úr dómsal þegar konan gefur skýrslu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Manninum er meðal annars gefið að sök að hafa kýlt barnsmóður sína með krepptum hnefa í bringu auk þess sem hann ýtti við henni svo hún féll í jörðina.
Manninum er meðal annars gefið að sök að hafa kýlt barnsmóður sína með krepptum hnefa í bringu auk þess sem hann ýtti við henni svo hún féll í jörðina. vísir/getty
Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra þess efnis að maður sem grunaður er um að beita barnsmóður sína ofbeldi víki úr dómsal þegar hún gefur skýrslu í málinu.

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að manninum sé gefið að sök að hafa ráðist að barnsmóður sinni í eitt skipti og þá kýlt hana með krepptum hnefa í bringu auk þess sem hann ýtti við henni svo hún féll í jörðina.

Þá á maðurinn að hafa ráðist í annað skipti á konuna. Hrinti hann henni í jörðina, sparkaði í læri hennar þar sem hún lá, kýldi í handlegg hennar, tók hana hálstaki og hótaði henni lífláti. Manninum er einnig gefið að sök að hafa kýlt konuna en svo tekið upp hníf og lagt að hálsi hennar og hótað.

Maðurinn hefur neitað sök hvað varðar fyrstu tilvikin tvö en ætlar að tjá sig um það þriðja við aðalmeðferð.

Vísað er í vottorð sálfræðings í úrskurðinum þar sem fram kemur að nærvera ákærða í dómsal kunni að vera barnsmóður hans verulega íþyngjandi þegar hún gefur skýrslu í málinu. Gæti nærvera hans jafnframt haft áhrif á framburð hennar og er því fallist á þá kröfu að maðurinn víki úr salnum þegar konan gefur skýrslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×