Innlent

Indverskar áhrifakonur líta til Íslands

Guðrún Ansnes skrifar
Hulda Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri FKA
Hulda Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri FKA
„Þær eru að koma hingað til að efla sín viðskiptatengsl fyrst og fremst, læra og skoða markaði, framþróun og skiptast á upplýsingum við íslenskar konur í atvinnurekstri,“ segir Hulda Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu, um hóp áhrifamikilla indverskra kvenna, FICCI-FLO, sem væntanlegur er til landsins þann 29. september næstkomandi. 

Þetta er í fyrsta skipti sem félagið fær heimsókn frá indverskum kynsystrum sínum.

„Þær eru mjög heillaðar af stöðu jafnréttis á Íslandi og finnst við hafa náð langt, sem er rétt, þó alltaf megi gera betur,“ bendir Hulda á.

Hulda segir indverska hópinn einblína mikið til á líftækni, heilsutengda framleiðslu, tækni- og leikjageirann, í bland við jafnréttismál, svo félagið mun bjóða þeim upp á sérsniðna dagskrá þar sem félagskonur verði í broddi fylkingar. Hún segir mikla upphefð fólgna í að fá hópinn til landsins en þegar hefur félagið tekið á móti kynsystrum frá Bandaríkjunum, Eistlandi og Noregi svo dæmi séu tekin.

„Þessir hópar koma hingað til að leita sér að fjárfestingartækifærum, innblæstri og hugmyndum, og síðast en ekki síst forvitnast um jafnréttismálin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×