Innlent

Ungir dómþolar geti fullnustað refsingu með samfélagsþjónustu

Jóhann Óli eiðsson skrifar
Helgi Hjörvar er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.
Helgi Hjörvar er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. vísir/vilhelm
Fimm þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram frumvarp til breytingar á almennum hegningarlögum. Frumvarpið felur í sér að ungir afbrotamenn geti fullnustað refsingar sínar með því að sinna samfélagsþjónustu.

Samkvæmt frumvarpinu verður hægt að dæma afbrotamenn á aldrinum fimmtán til 21 árs til að þeir eigi kost á þessu. Er dómur er kveðinn upp yfir brotamanni skal tiltekið hve mörgum tímum hann þarf að sinna til að refsingu teljist lokið. Dómþoli verður að teljast hæfur til samfélagsþjónustu  á grundvelli athugunar á persónulegum högum hans.

Með samfélagsþjónustu samkvæmt frumvarpinu er átt við ótímabundið ólaunað starf, svo sem líknar- eða félagsstarf, sem unnið er utan vinnutíma dómþola, þannig hann geti stundað vinnu eða nám samhliða refsingunni. Gert er ráð fyrir að Fangelsismálastofnun sjái um framkvæmd og fullnustu samfélagsþjónustunnar.

Frumvarpið var einnig lagt fram á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga. Fyrsti flutningsmaður er Helgi Hjörvar en að baki því standa einnig Kristján Möller, Oddný G. Harðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Valgerður Bjarnadóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×