Innlent

Rækta kakó- og kaffibaunir í gróðurhúsi í Hveragerði

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Guðríður Helgadóttir segir fyrstu kakóuppskeruna væntanlega.
Guðríður Helgadóttir segir fyrstu kakóuppskeruna væntanlega. vísir/vilhelm
„Við fengum fræ af kakóplöntum fyrir þremur árum og stærsta plantan er orðin einn og hálfur metri á hæð, við vonumst til að fá kakó af henni fljótlega,“ segir Guðríður Helgadóttir, staðarhaldari á Reykjum í Ölfusi. Fimm plöntur þykja vænlegar og blómstra í hitabeltisgróðurhúsi.

Í gróðurhúsinu er komin góð reynsla af ræktun kaffibauna. Þar eru fimm kaffirunnar sem gefa af sér góð aldin. „Það verður góð kaffibaunauppskera í ár, einn runni gefur gul aldin og annar rauð, þetta er mjög fínt kaffi. Fyrir ári buðum við fólki að kaupa kaffi af okkur, þá gat fólk bæði keypt sér kaffibolla og tekið með sér kaffi heim. Að sjálfsögðu var þetta dýrara en kaffi úti í búð, enda er ekki mikið magn í boði en þetta vakti mikla lukku. Ég er viss um að með vaxandi ferðamannaiðnaði gæti einhver ræktað íslenskt kaffi og kakó til sölu.“

Gróðurhúsið er frægast fyrir bananaræktun sína. „Hér í Hveragerði er stærsta bananaplantekra í Evrópu, segir Guðríður. „Það er enginn svona snarbilaður eins og við Íslendingar að rækta banana á norðurhjara veraldar. Svo ræktum við litlar villiappelsínur sem eru rosalega góðar í alls konar marmelaði.“

Íslenskar kaffibaunir hafa verið ræktaðar í Hveragerði um árabil.vísir/vilhelm
Guðríður segir ljóst að sérframleiðsla sem þessi sé alltaf dýrari enda plássfrek. Aðrir hluti vegi þar á móti. 

„Við erum með okkar eigin hitaveitu þannig að við erum ekki að greiða fyrir það. Við gætum verið að rækta miklu fleiri tegundir en við gerum núna. Þetta er skemmtilegt verkefni og sögulegar minjar sem við erum að reyna að varðveita því við erum búin að rækta hitabeltisgróður í sextíu ár í Hveragerði.“ 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.