Innlent

Rakel Garðarsdóttir framúrskarandi ungur Íslendingur

Samúel Karl Ólason skrifar
Rakel ásamt hinum sem voru tilnefnd.
Rakel ásamt hinum sem voru tilnefnd. Mynd/JCI
Rakel Garðarsdóttir var í dag valinn framúrskarandi ungur Íslendingur ársins. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, veitti Rakel verðlaunin við hátíðlega athöfn við í Háskólanum í Reykjavík. Rakel stofnaði samtökin Vakandi í ársbyrjun í fyrra, en samtökin berjast gegn sóun á matvælum.

Samkvæmt tilkynningu frá JCI á Íslandi, sem veitir verðlaunin, hefur orðið mikil vitundarvakning og viðhorfsbreyting í samfélaginu varðandi sóun á mat. Rakel hefur gefið út bók í nafni Vakandi og safnar hún nú fyrir heimilldarmynd um sóun á mat og tískufatnaði.

„Rakel hefur unnið allt sitt starf með Vakandi í sjálfboðavinnu og nýtt frítíma sinn í að berjast gegn sóun. Hún hefur reynt að bæta umhverfi sitt, heiminn allan og segir: „Lítil skref byrja alltaf hjá okkur sjálfum“.“

Hvatningarverðlaunin Framúrskarandi ungir Íslendingar eru veitt árlega af JCI á Íslandi og hafa verið veitt samfleytt frá árinu 2002. Árlega er kallað eftir tilnefningum sem dómnefnd  tekur við og velur topp 10 hóp og sigurvegara. Í dómnefnd í ár voru: Ari Kristinn Jónsson rektor HR, Katrín Jakobsdóttir, formaður vinstri grænna og alþingiskona, Kjartan Hansson landsforseti JCI og Vilborg Arna Gissurardóttir ævintýrakona og pólfari. Forseti Íslands, verndari verkefnsins, afhendir verðlaunin auk þess að afhenda öllum í topp 10 hópnum viðurkenningu.

Eva Brá Önnudóttir, baráttukona í málefnum námsmanna, Georg Lúðvíksson, stofnandi Meniga, Gísli Matthías Auðunsson, matreiðslumaður, Helgi Sveinsson, heimsmeistari í spjótkasti, Katrín Tanja Davíðsdóttir, heimsmeistari í crossfit, Kristín Sveinsdóttir, óperusöngkona, Kristjana Ásbjörnsdóttir, doktor í faraldsfræðum, Snædís Rán Hjartardóttir, baráttukona um mannréttindi, og Ævar Þór Benediktsson, leikari og vísindamaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×