Fótbolti

Hannes Þór hélt hreinu þriðja leikinn í röð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hannes Þór ver skot með NEC.
Hannes Þór ver skot með NEC. vísir/getty
NEC Nijmegen, með íslenska landsliðsmarkvörðinn Hannes Þór Halldórsson á milli stanganna, vann góðan sigur á Heerenveen, 2-0, í fyrsta leik sjöttu umferðar hollensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í kvöld.

Christian Santos, 27 ára framherji frá Venúsúela, skoraði bæði mörkin fyrir heimamenn; það fyrra á 18. mínútu og það síðara á 74. mínútu í seinni hálfleik.

Þetta er þriðji leikurinn í röð sem Hannes Þór heldur hreinu í hollensku deildinni, en liðið er nú búið að vinna tvo leiki og gera eitt jafntefli í síðustu þremur umferðunum eftir að tapa tveimur leikjum þar á undan.

Hannes er í heildina aðeins búinn að fá á sig fimm mörk í fyrstu sex umferðunum, en hann hefur verið í miklu stuði undanfarna mánuði og er, eins og allir vita, aðeins búinn að fá á sig þrjú mörk í átta leikjum í undankeppni EM með Íslandi.

Með sigrinum í kvöld skaust NEC upp í sjöunda sæti deildarinnar, en liðið er með tíu stig eftir sex leiki.

Hannes gekk í raðir NEC frá Sandnes Ulf fyrir tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×