Innlent

Á annan tug hlaupara leitaði á bráðamóttöku eftir Reykjavíkurmaraþonið

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá Reykjavíkurmaraþoninu sem fór fram í gær.
Frá Reykjavíkurmaraþoninu sem fór fram í gær.
Á annan tug hlaupara þurfti að leita á bráðadeild Landspítala Íslands vegna ofreynslu eftir Reykjavíkurmaraþonið sem fór fram í gær.  15 þúsund tóku þátt í hlaupinu en ýmist var hlaupið maraþon, rúma 42 kílómetra, hálfmaraþon, rúman 21 kílómetra, 10 kílómetra eða þriggja kílómetra skemmtiskokk.

„Það var enginn sem þurfti að leggjast inn á sjúkrahúsið vegna þessa og það voru engir alvarlegir fylgikvillar sem við höfum fundið eftir þetta,“ segir Hjalti Már Björnsson, læknir á bráðamóttöku Landspítala Íslands, í samtali við Vísi en fyrst var greint frá málinu á vef Ríkisútvarpsins.

Þvert á það sem margir gætu haldið var þessi ofreynsla ekki einungis bundin við maraþonið því flestir þeirra sem Hjalti Már sá leita á bráðamóttökuna eftir hlaupið höfðu farið tíu kílómetra eða hálfmaraþon.

„Við viljum bara hvetja fólk að reyna hæfilega mikið á sig, ekki ofreyna sig. Sérstaklega gæta að því ef það er illa fyrir kallað að hlusta þá á líkamann og hætta þá fyrr ef það finnur að þetta er að verða of mikið,“ segir Hjalti en ofreynsla getur reynst lífshættulegt ástand.

„Þess vegna þarf maður að fara vel með sig. Þó að sjálfsögðu við viljum hvetja fólk til hreyfingar og heilbrigðra lífshátta þá er rétt að gæta ákveðins meðalhófs hversu mikið maður pínir sig áfram.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×