Innlent

Málvillan á öllum verðlaunapeningum nema í Latabæjarhlaupinu

Birgir Olgeirsson skrifar
Upplýsingafulltrúinn vonar að þessi mistök muni ekki eiga sér stað aftur.
Upplýsingafulltrúinn vonar að þessi mistök muni ekki eiga sér stað aftur. Vísir/Daníel.
„Við reynum alltaf að passa þetta vel, þetta var nú bara eitthvað alveg sérstakt og óheppilegt,“ segir Anna Lilja Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi Íþróttabandalags Reykjavíkur, um verðlaunin sem þátttakendur Reykjavíkurmaraþonsins fengu í ár. Hlaupið fagnaði 32 ára afmæli í ár en margir þeirra sem þreyttu hlaupið tóku eftir því að það leyndist málvilla á verðlaunapeningnum.

Þar sem átti að standa Reykjavíkurmaraþon 32 ára stóð þess í stað Reykjavíkurmaraþon 32 árs. Einhverjir vilja rekja þessa villu til þess að í fyrra stóð á verðlaunapeningnum Reykjavíkurmaraþon 31 árs.

Þegar sagt var frá þessu máli fyrr í dag sagðist Anna Lilja ekki vita hvort þessi villa reyndist á verðlaunum fyrir allar vegalengdir en nú er komið í ljós að svo var, að undanskildu Latabæjarhlaupinu en á þeim verðlaunapeningum var mynd af Sollu Stirðu og Íþróttaálfinum.

Anna Lilja harmar þessi mistök og segir skipuleggjendur hlaupsins ætla að passa upp á að þetta gerist ekki aftur. „Við erum alltaf að reyna að vanda okkur, ég lofa því.“

Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri vöru- og markaðssviðs hjá Símanum, birti mynd af verðlaunapeningnum á Twitter í dag. Hafði hann áttað sig á málvillunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×