Innlent

Vilja að útvegsmenn ráði hve mikið veiðirétturinn kosti

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Jón Þór Ólafsson, Birgitta Jónsdóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson hafa myndað þingflokk Pírata.
Jón Þór Ólafsson, Birgitta Jónsdóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson hafa myndað þingflokk Pírata. vísir/vilhelm
Píratar samþykktu fyrr í dag nýja sjávarútvegsstefnu flokksins. Þar kemur meðal annars fram að Píratar vilji að allur afli skuli fara á markað, allar aflaheimildir skuli boðnar upp til leigu af íslenska ríkinu og að auðlindaákvæðið sem lagt var til í frumvarpi að nýrri stjórnarskrá verði tekið inn í stjórnarskrána.

Tillagan var fyrst kynnt á félagafundi þann 8. ágúst 2015 en þaðan var henni vísað í kosningakerfi flokksins sem hægt er að fylgjast með inn á vefnum. Kosning hófst þann 17. ágúst og lauk í dag. 84 greiddu atkvæði um tillöguna og var hún samþykkt samhljóða.

„Útvegsmenn sjálfir, í gegnum virkan uppboðsmarkað, munu ráða hversu mikið útvegurinn borgar fyrir réttinn til að veiða. Þegar ríkið ákveður veiðigjöld hafa útvegsmenn og samtök þeirra gífurlega hagsmuni af því að þrýsta á stjórnvöld, hamast á almenningi með áróðri og skekkja bókhald sitt með ýmsum aðferðum til að stilla stöðunni þannig upp að útvegurinn líti út fyrir að vera illa greiðsluhæfur og rökstyðja þannig kröfur um lækkuð gjöld,“ segir meðal annars í greinargerð þar sem rökstutt er að að aflaheimildir skuli boðnar upp.

Að auki var ályktað um að handfæraveiðar skuli gerðar frjálsar, búnaður og mannaforráð Landhelgisgæslunnar verði stórefld og að það verði gert refsivert að sjómenn taki þátt í leigu á aflaheimildum. Ályktunina í heild sinni má sjá með því að smella hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×