Innlent

Tók fyrstu skóflustunguna við Vesturbæjarskóla

Atli Ísleifsson skrifar
Kötturinn Dúlli lét sig ekki vanta.
Kötturinn Dúlli lét sig ekki vanta. Vísir/Vilhelm
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og nemendur í Vesturbæjarskóla tóku fyrr í dag fyrstu skóflustungurnar að viðbyggingu við skólann. Viðbyggingin verður tekin í notkun haustið 2017.

Undirbúningur að framkvæmdum hefur staðið yfir síðustu vikur en færa þurfti til kennslustofur sem standa á lóð skólans. Áætlaður heildarkostnaður vegna framkvæmda við viðbygginguna er 720 milljónir.

Í frétt á vef Reykjavíkurborgar segir að með viðbyggingunni sé verið að mæta þörf vegna aukins nemendafjölda. Jarðvegsframkvæmdir hefjast síðar í þessum mánuði.

„Nýja viðbyggingin verður 1.340 fermetrar og mun hún hýsa hátíðarsal, eldhús fyrir nemendur, sérkennslustofur og almennar kennslustofur. Á fyrstu hæð verður hátíðarsalur með aðstöðu fyrir skólahljómsveit og kennslustofur fyrir tónmennt. Salurinn tengist mötuneyti og verður einnig nýttur sem matsalur. Á annarri hæð verða fjórar almennar kennslustofur og myndmenntastofa. Á þriðju hæðinni kemur náttúrufræðistofa og útisvæði með gróðurreitum þar sem hægt verður að rækta grænmeti. Um hönnun sáu Teiknistofa Ingimundar Sveinssonar, Verkfræðistofan Viðsjá ehf og Mannvit.

Auk viðbyggingar verða einnig gerðar breytingar á eldra húsnæði skólans, en bókasafn og tölvuver verða endurbætt. Þá verður frístundaheimili við Vesturvallagötu endurgert með tilliti til eldvarna og flóttaleiða. Áætlað er að taka viðbygginguna í notkun haustið 2017,“ segir í fréttinni.

Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, tók nokkrar myndir af skóflustungunni og má sjá þær að neðan.

Vísir/Vilhelm
Vísir/Vilhelm
Vísir/Vilhelm
Vísir/Vilhelm
Vísir/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×