Spænskur klámmyndaleikstjóri er staddur hér á landi og hefur auglýst eftir hingsegin pörum til að taka þátt í klámmynd. Samkvæmt almennum hegningarlögum varðar það allt að sex mánaða fangelsisvist að framleiða eða dreifa klámi.
Í færslu á Facebook-síðu sinni bendir Ásta á að almenn hegningarlög hafi orðið til árið 1940 er tveimur lagabálkum var skellt saman í einn. Áður hafði Ásta skrifað BA ritgerð í sagnfræði um efnið og má lesa hana inn á Skemmunni. Ákvæðin um klám höfðu þá staðið frá árinu 1869 og fóru óbreytt inn í nýju lögin. Klámákvæði hegningarlaganna sé því nærri 150 ára gamalt. Þó bættust árið 2012 við greinar 210. gr. a. og 210. gr. b. sem taka sérstaklega til barnakláms.
Sjá einnig: Ætlar að taka femíníska klámmynd á Íslandi
„Þetta er auðvitað ritskoðun,“ segir Ásta í samtali við Vísi. „Það má íhuga það hvort að það eigi að fella ákvæðið úr gildi eða breyta því á einhvern hátt. Það ljóst að slíkt verður alltaf erfitt enda alltaf einhverjir sem vill halda í greinina eins og hún stendur núna.“
Þingmaðurinn verðandi bendir einnig á að það geti reynst erfitt að skilgreina hvað sé klám og hvað sé erótík. „Þegar lögin voru sett hefði til dæmis Free The Nipple baráttan þótt klám en í dag er það ekki svo.“
Í samtali við RÚV bendir lögmaðurinn Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson á að á Íslandi er oftar en ekki stuðst við skilgreiningu sérfræðinganefndar UNESCO. Samkvæmt henni er klám örgrandi framsetning á kynlífi í auðgunartilgangi, án ástar, blíðu eða ábyrgðar.
Sjá einnig: Guðlast ekki lengur ólöglegt
Í Facebook færslunni segir Ásta að skilgreining UNESCO sem Vilhjálmur vísar í sé í raun ekki til. „Enginn lagaspekingur hefur haft fyrir því að athuga hvaðan þessi skilgreining kemur heldur ávallt tekið dóm Hæstaréttar [innskot blaðamanns: nr. 124/1990] sem nægilegu yfirvaldi til að setja þessa skýringu.“
Hún bendir á að það hafi verið haldinn fundur árið 1986 um réttindi kvenna í boði UNESCO þar sem á þriðja tug kvenna ræddi saman um rétt og kjör kvenna. Hún segir í samtali við blaðamann að skilgreiningin hafi verið tekin saman eftir fundinn en ekki verið samþykkt af öllum aðilum.
„Það er líka spurning hvenær er glæpur framinn. Er það glæpur að búa til klámfengna teiknimynd, málverk eða texta? Er hægt að refsa einhverjum fyrir ímyndun sína? Þetta er umdeilt mál en mér finnst að það eigi að skoða þetta og skerpa á því.“
„Við búum einfaldlega á öðrum tímum en þegar þetta ákvæði var sett og því hefur ekki tekist að standast tímans tönn,“ segir Ásta. „Enn sem komið er eru þetta vangaveltur mínar og engin vinna er hafin hjá okkur við þetta.“
Mig langar til að koma með tvær athugasemdir við þetta, þótt að það sé í raun og veru allt satt og rétt sem Vilhjálmur...
Posted by Ásta Guðrún Helgadóttir on Friday, 31 July 2015