Sport

Greip hafnabolta í leik með sjö mánaða dreng í fanginu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Atvikið vakti mikla athygli á vellinum.
Atvikið vakti mikla athygli á vellinum. Vísir/Getty
Ótrúlegt atvik átti sér stað þegar hafnaboltaliðin Chicago Cubs og LA Dodgers áttust við í gær.

Keith Hartley, 29 ára gamall stuðningsmaður Chicago, var að gefa sjö mánaða syni sínum pela þegar hann sá að boltinn hafði verið sleginn í átt til hans.

Hartley var hinn rólegasti, stóð upp með drenginn í fanginu og greip boltann. Ungi maðurinn hélt áfram að drekka úr pelanum á meðan eins og sést í myndbandinu hér fyrir neðan.

„Ég var pínu hrædd um að hann myndi missa drenginn,“ sagði Kari, eiginkona Keith, sem sat við hlið hans. Sá stutti heitir Isaac. „En hann hélt fast um bæði boltann og Isaac.“

Leikmaður Dodgers átti möguleika á að grípa boltann og samkvæmt reglum mega áhorfendur ekki trufla leikinn með þessum hætti. Þeim er oftast vísað af velli þegar þeir brjóta þessa reglu en Hartley fékk að klára að horfa á leikinn með fjölskyldu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×