Innlent

Fluttur „nær dauða en lífi“ úr fangaklefa upp á spítala

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ríkharð Júlíus Ríkharðsson er einn af þremur sem ákærðir eru fyrir líkamsárás, frelsissviptingu og rán í Kópavogi í febrúar í fyrra.
Ríkharð Júlíus Ríkharðsson er einn af þremur sem ákærðir eru fyrir líkamsárás, frelsissviptingu og rán í Kópavogi í febrúar í fyrra. vísir/valli
Guðmundur St. Ragnarsson, verjandi Ríkharðs Júlíusar Ríkharðssonar, sem ákærður er fyrir líkamsárás, frelsissviptingu og rán í Kópavogi í fyrra, hefur kært meðferðina sem skjólstæðingur hans sætti í haldi lögreglu til ríkissaksóknara. Vísaði ríkissaksóknari málinu til embættis sérstaks saksóknara sem rannsakar það nú, að sögn verjandans.

Forsaga málsins er að Ríkharð gaf sig fram við lögreglu vegna umræddrar árásar sem hann er ákærður fyrir ásamt tveimur öðrum, þeim Kristjáni Markúsi Sívarssyni og Marteini Jóhannssyni.

Ríkharð var handtekinn og færður í fangaklefa á grundvelli þess að halda má fólki í sólarhring án gæsluvarðhaldsúrskurðar. Hann er sykursjúkur og lét lögreglu strax vita af sjúkdómnum og því að hann þyrfti tilskilin lyf vegna hans.

Var í dái í marga daga

Ríkharð fékk hins vegar ekki lyf á meðan hann var í haldi lögreglu og missti því meðvitund í fangaklefanum. Þar fannst hann og var fluttur „nær dauða en lífi“ upp á Landspítala þar sem hann var í dái í marga daga, eins og fram kom í málflutningsræðu verjandans síðastliðinn mánudag. Það var því ekki hægt að taka skýrslu af honum vegna meintrar líkamsárásar fyrr en 10 dögum eftir að hún átti sér stað.

Þá kom jafnframt fram í málflutningsræðunni að Ríkharð hafi verið edrú síðan hann vaknaði úr dáinu. Líf hans hefði tekið miklum stakkaskiptum en hann býr nú í Danmörku þar sem hann fór í skóla og fékk vinnu í kjölfarið. Þá sé hann jafnframt farinn að umgangast börnin sín sem var ekki raunin fyrir umrædda árás.

Á grundvelli þessara breyttu aðstæðna ákærða fór Guðmundur fram á það að Ríkharð yrði sýknaður og til vara að hann yrði dæmdur til vægustu refsingar sem yrði skilorðsbundin. Krafa verjandans byggði jafnframt á því að hann telur að gengisfella megi ákæruna í málinu að miklu leyti.

Ósannað að maðurinn hafi verið sviptur frelsi sínu

Gagnrýndi verjandinn meðal annars hversu illa ákæruvaldið mat þátt hvers og eins í ætlaðri árás og sagði að ekki væri rétt að tala um samverknað þremenninganna. Fyrir lægi í málinu að Kristján hefði verið „aðalmaðurinn“ og miklu nær hefði því verið að ákæra Ríkharð og Martein fyrir hlutdeild í meintum brotum. Væri því ekki hægt að leggja þátt þeirra alla að jöfnu í málinu.

Þá sagði Guðmundur að ósannað væri að um frelsissviptingu hefði verið að ræða. Ákærðu hafi ekki haldið fórnarlambinu föngnu í marga klukkutíma, hann hefði ekki verið keflaður eða bundinn, honum hefði ekki verið gert að halda sig á afmörkuðu svæði og þá hafi honum ekki verið meinað að fara út úr íbúðinni.

Guðmundur fór jafnframt yfir það Ríkharð hefði reynt að draga úr ofbeldinu sem hugsanlega átti sér stað í íbúðinni auk þess sem hann hefði beðið fórnarlambið afsökunar á því sem átti sér stað og sýnt iðrun fyrir dómi.


Tengdar fréttir

Fluttur nær dauða en lífi á sjúkrahús

Maður hlaut alvarlegan insúlínskort á meðan hann var í haldi lögreglu. Maðurinn segist hafa beðið um insúlínsprautu en ekki fengið. Lögmaður mannsins hyggst fara fram á að málið verði rannsakað en ekki hefur verið tekin ákvörðun um kæru.

Vill Skeljagrandabróður eldri í fimm ára fangelsi

Munnlegur málflutningur í málum ákæruvaldsins gegn Kristjáni Markúsi Sívarssyni, Marteini Jóhannssyni, Ríkharði Júlíusi Ríkharðssyni og tveimur 19 ára piltum hófst í Héraðsdómi Reykjaness í morgun.

Verjandi Kristjáns segir hann „hömlulausan” í neyslu

Verjandi Kristjáns Markúsar Sívarssonar sagði í máflutningsræðu sinni í dag að skjólstæðingi sínum væri að fullu ljóst að hann fengi þungan dóm fyrir þau mál sem ákæruvaldið hefur höfðað gegn honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×