Fótbolti

Jara potaði ekki bara í rassinn á Cavani heldur talaði líka illa um föður hans

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ekki nóg með að Gonzalo Jara, varnarmaður Síle, stakk fingri sínum í afturenda Edisons Cavani, framherja Úrúgvæ, þá hafði hann líka ófögur orð um föður framherjans.

Jara var úrskurðaður í þriggja leikja bann í Suður-Ameríkukeppninni fyrir að pota í rassinn á Cavani, en framherjinn reiddist svo við atvikið að hann fékk rautt spjald fyrir að hefna sín.

Jara missir af undanúrslitaleik Síle gegn Perú og úrslitaleiknum komist liðið þangað sem er leiðinlegt fyrir hann þar sem Síle er að spila á heimavelli.

Mario Rebollo, aðstoðarþjálfari Úrúgvæ, sagði í viðtali við úrúgvæsku útvarpsstöðina Radio Hora 25 að Jara hefði einnig talað illa um föður Cavanis við leikmanninn.

Luís Cavani, faðir Edisons, lenti í hræðilegu umferðarslysi síðustu viku. Hann varð 19 ára gömlum dreng að bana þegar bíll Luís skall á mótorhjól sem drengurinn var á.

„Ekki bara snerti hann Cavani eins og allir sáu heldur sagði hann líka að faðir Cavani myndi fara í 20 ára fangelsi,“ sagði Mario Rebollo.

Félagslið Jara, Mainz, hafði lítinn húmor fyrir aðgerðum Jara og gaf það út að leikmaðurinn væri kominn á sölulista daginn eftir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×