Sport

Gunnar Nelson: Conor getur gengið frá Aldo í gólfglímu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Conor McGregor hefur talað hátt og mikið í aðdraganda bardagans.
Conor McGregor hefur talað hátt og mikið í aðdraganda bardagans. vísir/getty
Nú er innan við mánuður þar til stærsta bardagakvöld ársins í UFC fer fram í Vegas þar sem barist verður um tvo heimsmeistaratitla. Bardagakvöldið fer fram 11. júlí og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.

Robbie Lawler og Rory McDonald berjast um titilinn í veltivigtinni og írski vélbyssukjafturinn Conor McGregor reynir að standa við stóru orðin og hirða heimsmeistaratitilinn af Jose Aldo í fjaðurvigtinni.

Gunnar Nelson berst gegn Bandaríkjamanninum John Hathaway sama kvöld, en Gunnar var spurður um möguleika Conors gegn heimsmeistaranum í viðtali við Submission Radio á dögunum.

Conor er frábær í standandi bardaga rétt eins og Aldo, en margir telja Brasilíumanninn hafa yfirhöndina fari bardaginn í gólfið enda er hann gríðarlega fær gólfglímukappi og með svarta beltið í BJJ.

Aðspurður hvort Conor geti gengið frá Aldo í gólfglímu segir Gunnar: „Hann getur það alveg hundrað prósent.“

„Hann er mjög góður í gólfinu og mun betri þegar verið er að berjast í MMA því það er allt öðruvísi en hefðbundin gólfglíma.“

Gunnar er sjálfur svartbeltingur í brasilísku jiu jitsu og veit því um hvað hann er að tala.

„Grappling og jiu jitsu er ekki eins þegar kemur að því að berjast í blönduðum bardagalistum (MMA). Conor er mjög hraður og getur hreyft sig í flestar áttir. Hann verður betri með hverjum deginum þannig ef góður svartbeltingur gleymir sér mun hann ganga frá viðkomandi,“ segir Gunnar Nelson.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×